sóttvarnalög.
Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir andsvarið. Ég skil vel það sem hún er að segja og átta mig á því að þannig virkar lagaumhverfi okkar. En ég velti hreinlega upp þeirri spurningu, þegar við erum með reglugerðir sem hefta svo verulega frelsi einstaklinganna, hvort raunverulegur grunnur sé fyrir því að hægt sé að gera það með reglugerð til lengri tíma. Ég verð að viðurkenna að mín upplifun var sú í vor þegar við fengum á okkur þessa nokkuð óvæntu árás frá þessari veiru að það væri bara fullkomlega eðlilegt að framkvæmdarvaldið brygðist við og það strax og hratt í samræmi við ráðleggingar okkar helstu sérfræðinga.
En þegar við komum lengra og lengra inn í þennan faraldur þá velti ég fyrir mér hvort hægt væri að nálgast verkefnið þannig að þingið þurfi að gefa frekari heimildir. Ég hygg að hæstv. ráðherra sé að vísa í Noreg þegar hún segir að ekki hafi verið heimildir fyrir reglugerðinni. Það var einmitt það sem ég tók út úr fréttum. Ég beini því til hv. velferðarnefndar að mér fyndist mjög áhugavert að skoða nálgun Norðmanna og hvort hún gæti átt við í þessum málum þegar við ræðum sóttvarnalög.