151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta eru auðvitað gríðarlega mikilvægar spurningar. Ég verð að segja að í þessum faraldri, þótt við séum svolítið upptekin stundum af því að takast á hér í þessum sal, hefur Alþingi sýnt hvað í því býr í hverju málinu á fætur öðru. Þá er ég að tala um viðbrögð við faraldrinum, efnahagsráðstafanir o.s.frv., sem hafa verið lögð fram í frumvörpum, stjórnarfrumvörpum og hefur verið breytt mjög mikið í meðförum þingsins. Það er einkenni íslenska þingsins, get ég sagt, að það setur mikið mark sitt á frumvörp og mun meira en t.d. systurþingin á Norðurlöndunum þar sem samráðið og vinnan hefur öll átt sér stað fyrr. Mér finnst það til fyrirmyndar að þingið sé mjög öflugt og sveigjanlegt og taki svolítið á svona vinnu í gegnum breytingar á frumvörpum.

Að því er varðar viðbrögð við faraldri þá tek ég undir það sem hv. þingmaður segir, aldrei óraði mann fyrir því að maður ætti eftir að tala um sóttkví og samkomubann o.s.frv., öðruvísi en bara í tengslum við skáldsögur eða mannkynssögu. En núna er það orðið partur af okkar daglega lífi. Núna höldum við niðri í okkur andanum á hverjum morgni þegar við bíðum eftir fréttum um fjölda smita og hversu margir smitaðir hafi verið utan sóttkvíar af því að við vitum að það er ákveðinn mælikvarði á það hvar við erum stödd og hversu mikið er af smitum enn þá úti í samfélaginu og þar með hversu greitt við getum farið í að slaka á aðgerðum. Við vitum þetta öll. Ég myndi svo gjarnan vilja sjá að við hefðum meiri fyrirsjáanleika í aðgerðum og gætum vitað hvenær bólusetning hæfist og hvenær henni lyki o.s.frv., en því miður er það veiran sem ræður þessari tímalínu.