sóttvarnalög.
Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Ég tek undir þetta með fyrirsjáanleikann, við erum beðin um hann í öllum okkar umræðum. Hann er það sem atvinnulífið og samfélagið þarf en við erum bara á þeim stað að fyrirsjáanleikinn er mjög takmarkaður. — Nú man ég, virðulegur forseti, hvað ég ætlaði að koma inn á. Ég tek undir sjónarmið hæstv. ráðherra varðandi þingið og ég held að þingið hafi verið til fyrirmyndar í að fjalla um Covid-tengd mál. Þá kemur kannski að því að í fyrstu litum við þannig á, og ég leit þannig á og geri í rauninni enn, að okkar hlutverk væri fyrst og fremst að bregðast við með efnahagslegum aðgerðum og þess háttar. Svo voru sóttvarnirnar annað, þær voru á borði hæstv. ráðherra þar sem hún fylgdi ráðum okkar færustu sérfræðinga. En punkturinn sem ég vil koma inn á er hvort aðgerðir þingsins núna, þegar við höfum þó þessa reynslu, þetta eru orðnir níu mánuðir eða svo, ættu á einhverjum tímapunkti að vera meiri varðandi sóttvarnahlutann líka. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að eftirlitshlutverkið er mikið og hér hefur verið kallað eftir umræðum við ráðherra og það er af hinu góða og mjög mikilvægt og gott. En það er þetta með þá miklu skerðingu sem við erum að setja á frelsi einstaklinganna. Ég er á því að það sé þörf á því, ég hef skilning á því, en á sama tíma segi ég: Þarf kannski frekari umræðu hjá löggjafanum þegar við ráðumst í slík verkefni og slíka skerðingu sem á að gilda í töluvert langan tíma? Það er kannski punkturinn og ég beini því til hv. velferðarnefndar.
Annars þakka ég þessa góðu umræðu og tel mikilvægt að við förum vel og vandlega yfir þessi lög og eins og hæstv. ráðherra kemur inn á er maður alltaf að læra eitthvað nýtt. Afkvíun er t.d. orð sem ég rek augun í (Forseti hringir.) og ég hef ekki vitað hingað til hvað það þýðir, en það er alltaf eitthvað nýtt í þessum sóttvarnaheimi.