151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með þetta frumvarp. Ég styð það heils hugar og geri í rauninni engar athugasemdir en velti vöngum yfir því sem hæstv. ráðherra vísar í, álitsgerð Páls Hreinssonar, þar sem hann er að draga fram valdmörk sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra hvað lýtur að sóttvarnaaðgerðum gagnvart borgurunum. Ég hef a.m.k. reynt að tengja þetta saman.

Í fyrsta lagi þurfum við að tryggja það þegar frumvarpið verður samþykkt að íslenska ríkið sé ekki að ganga það harkalega fram gagnvart borgurunum, sem hefur í rauninni orkað tvímælis núna varðandi aðgerðir á landamærum, að það gæti hugsanlega orðið skaðabótaskylt. Það liggur alveg ljóst fyrir í áliti Páls Hreinssonar, í 9. kafla á bls. 19, að við höfum hreinlega ekki staðið okkur í stykkinu. Við höfum verið að hamast við að þýða og laga til gerðir og álit, utanaðkomandi reglugerðir, sem eru í takti við alþjóðaskuldbindingar okkar. En einhverra hluta vegna skolaðist alþjóðaheilbrigðisreglugerðin til. Hún var samþykkt árið 2005, fyrir 15 árum, en einhverra hluta vegna hefur hún aldrei verið birt í C-deild Stjórnartíðinda. Hugsa sér, hún hefur í rauninni aldrei öðlast lagalegt gildi. Þetta er trygging fyrir íslensk stjórnvöld og okkur öll til að stjórnvöld gangi ekki harkalegar fram en lög leyfa. Við eigum okkar ágætislögmætisreglu sem felur m.a. í sér — nú ætla ég að þykjast vera einhver lögspekingur og fara að kenna lögfræði í ræðustólnum — að stjórnvöld mega ekki gera neitt, bara akkúrat ekki neitt, gagnvart okkur borgurunum eða því sem í kringum þau er nema hafa fyrir því heimild í lögum. Stjórnvöld verða ævinlega að hafa heimild í lögum. Ef þau hafa ekki heimild í lögum hafa þau um leið opnað á þann möguleika að vera gerð skaðabótaskyld vegna eins og annars. Hinn hlutinn sem ég ætla að segja sérstaklega, bara til gamans, er að við borgararnir megum hins vegar ekki gera neitt sem brýtur í bága við lögin. Þá kann það að hafa einhverjar misalvarlegar afleiðingar.

Ég ætla ekki að halda þrumuræðu. Ég hafði hugsað mér að vísa aðeins í álit Páls Hreinssonar til að rökstyðja og undirstrika það sem ég er að tala um í sambandi við C-deild Stjórnartíðinda og þær afleiðingar sem það hefur að núna skuli 300 þýddar reglugerðir, álit og annað slíkt liggja ofan í skúffu hjá stjórnvöldum án þess að hafa verið sett í birtingu í C-deild Stjórnartíðinda. Ég veit að þingmálið er íslenska og það er búið að viðurkenna að orðið skandall er notað í íslensku. Og ég segi: Þetta er skandall. Það er skandall að við skulum hafa 300 reglugerðir og álit vegna alþjóðasamninga okkar, EES-samningsins og annars slíks, án þess að hafa birt þau í C-deild Stjórnartíðinda og gert þau um leið lögmæt. Það er eiginlega alveg með ólíkindum. Þess vegna fagna ég enn frekar þessu frumvarpi og vona að það gangi bara sína leið eins fljótt og örugglega og hugsast getur.

Ég geri engar athugasemdir við að í miðjum faraldri sé verið að setja inn í frumvarpið útgöngubann eða hvaðeina annað. Við sjáum hvernig reynt er að beita misjöfnum aðgerðum í löndunum í kringum okkur. Við getum a.m.k. þakkað okkur sjálfum og heilbrigðisstarfsfólki og bara þjóðinni almennt og öllum sem hér eru, svona að megninu til öllum, fyrir það að hafa virkilega farið að tilmælum þríeykisins okkar og sýnt í verki hvað við erum frábær og hvers megnug við erum þegar við stöndum saman. Það er ekki langt síðan við vorum eldrauð á öllum kortum í Evrópu og talin vera með einhver flestu mælanlegu Covid-smit miðað við höfðatölu en núna erum við hins vegar skínandi björt og sennilega talin vera með einhverjar lægstu smittölur miðað við aðrar Evrópuþjóðir. Þær þjóðir eru líka að ganga í gegnum þvílíkar hörmungar núna og við sjáum það ekki bara hjá Evrópuþjóðum heldur líka þegar við lítum lengra í burtu. Við njótum þeirra forréttinda hér að vera lítil eyja norður í ballarhafi og með góða og styrka sóttvarnastjórn sem gæti að mínu mati verið enn styrkari og ég hef ekkert legið á skoðun minni á því. Ég kom fyrst fram í janúar, mánuði áður en fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi, til að kalla eftir því hvernig íslensk stjórnvöld ætluðu að undirbúa sig gagnvart þeirri vá sem virkilega virtist vera í uppsiglingu. Ég er ekki norn, ég er ekki forspá en ég var kölluð Covid-sófasérfræðingur og hálfgerður fáviti fyrir að hafa sýnt ákveðna fyrirhyggju og virkilega viljað axla ábyrgð og kallað eftir því við stjórnvöld.

Stjórnvöld eiga að gera meira en hugsa bara um efnahagsáhrifin. Ég þarf ekki að segja bara af því að þetta er náttúrlega alveg hrikaleg holskefla og hár brimskafl sem við erum að sigla í gegnum núna. Það breytir ekki þeirri staðreynd að við gætum hafa losnað við tugi ef ekki hundruð milljarða ef við hefðum tekið öðruvísi á málum, ef við hefðum í rauninni algjörlega komið í veg fyrir að flytja veiruna inn nema í einhverjum undantekningartilfellum. Auðvitað hefðum við ekki getað lokað á að okkar eigin þegnar kæmu til landsins en auðveldara hefði verið að halda utan um það. Auðvitað hefðum við ekki getað lokað á aðflutning á vörum og þjónustu eða neitt slíkt. Það er enginn að tala um það. En með þeim aðgerðum sem þó eru á landamærunum höfum við komið í veg fyrir að a.m.k. um 300 afbrigði veirunnar kæmu inn til landsins.

Við erum samt sem áður að glíma við þennan faraldur og skelfilegan dauða, ótímabæran í sumum tilvikum að mínu mati. Ég er þannig. Ég er bara það gróf í mínum málflutningi. Við værum ekki með neina lokunarstyrki, við værum ekki að ganga um með grímur, það væri ekki 2 metra regla og sprittbrúsar á hverju horni, við værum ekki að koma í veg fyrir að fólk hittist, færi út að borða og færi í leikhúsið, tónleikarnir væru á fleygiferð og leikhúsin og allt saman og skólarnir og íþróttir og allt. Það eina sem við hefðum þurft að horfast í augu við að hefði hrunið í fangið á okkur væri gulleggið okkar, þriðja gulleggið okkar í körfunni, ferðaþjónustan. Að öðru leyti hefði samfélagið okkar getað gengið algerlega smurt og snurðulaust fyrir sig nema í einhverjum fáum undantekningartilvikum. Þar er ég stödd.

Ég ætla aftur að hrósa hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp en um leið heyrir hún náttúrlega að undirliggjandi hundskamma ég hana fyrir að hafa ekki stigið fastar niður hvað það varðar að koma í veg fyrir innflutning þessarar veiru. Ég vil ekki sjá þessa veiru ef við getum losnað við hana. Og við getum það, örfáar hræður á afmörkuðum stað norður í ballarhafi. Auðvitað hefur ekki verið mikil ásókn í ferðir neins staðar. Það eru allir í vanda. Það eru allir að passa sig og vernda sig og reyna sitt besta. En það gengur mismunandi vel og okkur hefur tekist betur en flestum öðrum þegar við beitum þeim aðferðum sem virka. Þess vegna hrýs mér hreinlega hugur við því ef við erum að fara að takast á við nýja bylgju fljótlega. Ég vona a.m.k. að það verði ekki. Ef ég hefði mátt ráða, sem ég geri ekki og flestir eru sjálfsagt ægilega ánægðir með það, værum við öll að hrúgast út í búð núna að undirbúa jólin og það væri ekkert vandamál og engar grímur og ekkert vesen.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég segi bara: Ég vona að frumvarpið þjóti hér í gegn. Ég greiði því atkvæði fyrir fram, tvisvar og þrisvar í gegnum allar umræðurnar, það er ekkert vesen með það. Ég vil bara hvetja ríkisstjórnina almennt til að gyrða sig í brók og fara að koma þessum 300 þegar túlkuðu reglugerðum og ályktunum í löglegt form með því að birta þau í C-deild Stjórnartíðinda. Ég fatta engan veginn þennan skandal. Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en það kom fram í áliti okkar góða sérfræðings Páls Hreinssonar, sem er mjög vandað. Það hefur a.m.k. aðeins bankað í mig og ég er viss um að það hefur bankað í okkur öll. Það átti líka að gera það þannig að það er vel. Ég tel að þess vegna séum við líka komin með þetta fína frumvarp og ekkert að því, það er bara akkúrat ekkert að því að hafa útgöngubann. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að nota það. Ég segi: Það er miklu þægilegra og miklu betra og miklu öruggara fyrir okkur, heilbrigðisráðherra, heilbrigðisyfirvöld, stjórnvöld, sóttvarnayfirvöld og alla, að hafa þetta í farteskinu. Þrátt fyrir að við ætlum kannski ekki að nota það, og vonandi þurfum við ekki að gera það, er það a.m.k. til staðar og við verðum ekki lögsótt fyrir að brjóta gegn borgurunum.