sóttvarnalög.
Virðulegi forseti. Mig langar bara að segja, vegna þess að hv. þingmaður víkur orðum að birtingu alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar, að það kom fram í framsögu minni að þau ákvæði reglugerðarinnar sem fjalla um sóttvarnaráðstafanir eru felldar inn í 11. gr. frumvarpsins en reglugerðin hefur nú verið send Stjórnartíðindum til birtingar og má búast við að hún verði birt formlega í C-deild á næstu dögum eða vikum. Þannig að ég get glatt hv. þingmann með því að það er a.m.k. vilji þeirrar sem hér stendur hvort sem við ætlum að kalla það að gyrða sig í brók eða bretta upp ermar.
En mig langar líka að segja af því að hv. þingmaður er að tala um það hvaða ákvarðanir maður er að taka á hverjum tíma — og ég veit, vegna þess að ég hef verið í þeim sporum sjálf, að það er ekki einfalt að taka ákvarðanir sem varða svona ríka hagsmuni, sem varða svona stóra hagsmuni, og ég tala nú ekki um ákvarðanir sem eru líka íþyngjandi fyrir fólk og í íslenskri stjórnskipan er það þannig að við erum, hver ráðherra fyrir sig, með í raun og veru endanlegt ákvörðunartökuvald í okkar málaflokki þó að ég hafi haft þann háttinn á að kynna fyrir ríkisstjórn aðgerðir mínar jafnharðan — að sú ákvörðun sem ég og við höfum tekið, sem er að fara að ráði okkar besta fólki, það er mín sannfæring að það hafi verið rétt ákvörðun. Hún hefur verið til góðs. Það er hins vegar þannig að á öllum tímum getur maður staldrað við og horft um öxl og sagt: Ef ég hefði vitað það þá sem ég veit í dag hefði ég e.t.v. tekið aðra ákvörðun.
En mig langaði bara, virðulegur forseti, að víkja nokkrum orðum að þessu vegna þess hversu dýrmætir hagsmunir eru á ferð, að fullvissa hv. þingmann um það að líf og heilsa eru alltaf efst á blaði.