151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjórnvöld á Nýja-Sjálandi hafa reynt þetta, þ.e. að loka veiruna úti. Það hefur ekki gengið og það er staðreynd og liggur fyrir í þeim tölum sem við erum með að hæstu bylgjurnar og mesta smitið erum við sjálf, þ.e. það hvernig við komum saman og umgöngumst hvert annað. Það þarf ekki nema eitt smit til að koma bylgju af stað.

Það sem liggur fyrir með þessa veiru er að hún er óvenjulega skæð og líka er hún óvenjulega, hvað á ég að segja, harðsnúin vegna þess að meðgöngutíminn er svo langur þannig að það er erfiðara en ella að ná utan um hana. Og með því að fara þá leið sem við höfum gert, með því að rekja hvert einasta smit — við höfum farið í smitrakningu í kringum hvert einasta smit — hefur okkur lánast, sem hv. þingmaður nefnir hér, í raun og veru að byggja á okkar styrkleikum.

Við erum lítið samfélag. Við erum tiltölulega fá. Við erum eyríki. Við erum vel upplýst. Það eru tiltölulega stuttar boðleiðir þannig að það er auðvelt að koma skilaboðum á framfæri milli fólks. Það hefur verið okkar helsta gæfa meðfram því að fylgja ráði okkar besta fólks og ég vil halda því til haga. En af því að ég hef ekki talað nógu skýrt áðan varðandi alþjóðaheilbrigðisreglugerðina, sem er sameiginlegt áhugamál okkar hv. þingmanns, þá eru það bara þau ákvæði sem fjalla um sóttvarnaráðstafanir á landamærum sem fara í 11. gr. en reglugerðin í heild verður birt í Stjórnartíðindum.