151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Hún nefnir Nýja-Sjáland sérstaklega og þá langar mig að nefna að þar búa um 5 milljónir manna og mesti fjöldi smita þar á einum degi, í mars síðastliðnum, voru 87 einstaklingar. Það eru bara baunir, virðulegi forseti, miðað við það sem okkar litla eyríki hefur þurft að kyngja í þessum faraldri, bara baunir. Síðan kom það upp að talið væri að þetta hefði flust inn með frosnum matvælum. Ég hef reyndar ekki séð fréttir um hvort það hafi verið staðfest. Þá voru 13 einstaklingar sem fengu veiruna í sömu fjölskyldu. Það hefði líka verið dálítið fallegt hefði hæstv. heilbrigðisráðherra nefnt það. Að öðru leyti gengur lífið í rauninni sinn vanagang á Nýja-Sjálandi. Þar eru engir lokaðir skólar og allt í steik. Þar er gripið inn í snöggt og strax og þetta bara slegið út af borðinu. Þannig hefði ég viljað sjá það hér vegna þess að þriðja bylgjan er búin að sýna það og sanna að með því að grípa inn í og standa saman þá erum við ótrúlega fljót að rétta úr kútnum, a.m.k. hvað varðar smitdreifingu innan lands á þessum tíma. Auðvitað er maður hálfkvíðinn fyrir því að við verðum eins og kvígurnar sem hleypt er út á vorin núna þegar jólin fara að nálgast. Jólin eru ofboðslega sterk og stór í hjarta okkar og þess vegna verðum við að passa okkur. Ég hvet alla landsmenn til að fara varlega. Við skulum bara versla fyrr og borða bara jólasteikina á fjarfundi eða í gegnum Zoom, ég veit það ekki. En alla vega þá við verðum að passa okkur. Við viljum ekki fá þetta aftur.