sóttvarnalög.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Píratar hafa eitt og annað við útgöngubannið að athuga. Ég vil þá beina augum að lögum um almannavarnir frá 2008, en þar segir m.a. að ef hætta vofir yfir þá getur lögreglustjóri eða sýslumaður kvatt hvern fulltíða mann til tafarlausrar aðstoðar. Hann getur líka skyldað menn til að sækja námskeið og æfingar og hann getur skyldað menn til að yfirgefa ekki lögsagnarumdæmi án leyfis. Þetta eru vægu atriðin. Á hættustundu er hægt að banna umferð og fjarlægja fólk sem óhlýðnast, það er hægt að banna dvöl og það er einnig hægt að kyrrsetja fólk. Í sjálfu sér, ef það er hægt að banna dvöl og umferð, þá er hægt að kyrrsetja fólk, segjum í húsum. Það er hægt að flytja fólk af hættusvæði og það er öllum skylt að hlýða og brottflutningur ella. Það er hægt taka húsnæði leigunámi, það er hægt að skylda almenning til að veita öðru fólki húsaskjól og viðurgjörning, það er hægt að taka eignarnámi matvæli, eldsneyti, varahluti, lyf o.fl.
Það eru því fordæmi fyrir mjög íþyngjandi aðgerðum í íslenskum lögum þegar kemur að náttúruvá, eins og má heyra hér, að sjálfsögðu. Þannig að mér leikur eiginlega forvitni á að vita af hverju verið er að veifa þessum áhyggjum núna þegar þetta er jú til í íslenskri löggjöf, að vísu við aðrar aðstæður. En nú geta eldgos líka orðið langvinn og fyrir mér er þetta fullkomin hliðstæða.