151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:19]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni andsvarið. Því er til að svara að já, vissulega eru önnur íþyngjandi ákvæði annars staðar í almannavarnalögum, og hafa vissulega rétt á því að vera þar. Það sem ég vil hins vegar benda á er samhengið, heildarsamhengið. Eins og ég kom inn á áðan erum við í miðri á og við erum í viðkvæmu samtali. Það hefur myndast traust í samfélaginu gagnvart sóttvarnayfirvöldum og þeirri ákvörðunartöku, þeim hefur verið fylgt. Auðvitað eru menn ekki alltaf sammála og það er umræða, en þegar öllu er á botninn hvolft þá sjáum við hvernig tekist hefur að ná kúrfunni niður og smit minnkað. Fólk er að fylgja þessum tilmælum og reglum sóttvarnayfirvalda. Traust er eitt það mikilvægasta í lífinu sjálfu og hvað þá hvað varðar samskipti stjórnvalda við almenning í landinu og mér finnst það bara svo dýrmætt, dýrmætur hlutur sem við erum mögulega að kasta á glæ. Jafnvel þó að, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson bendir á, það séu málefnaleg rök fyrir því að þetta sé þarna inni þá bendi ég bara á að það væri, held ég, miklu skynsamlegra að taka það samtal eftir að við erum komin út úr krísunni fyrst það virðist glitta í að ekki sé allt of langt í það. Hv. þingmaður nefnir eldgos, þau geta staðið yfir í áraraðir, og þá þarf að gera það meðan krísan er yfirstandandi. En mér finnst bara mjög freistandi að viðhalda þessu dýrmæta trausti við þjóðina og bjóða ekki upp á það að þetta verði pólaríserandi mál í samfélaginu og í fjölmiðlum o.s.frv.