sóttvarnalög.
Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir seinna innlegg. Hv. þingmaður segist nema holan hljóm í því sem ég set hér fram. Þá get ég upplýst hv. þingmann að það er mín sannfæring, einskær og djúpstæð sannfæring, sem fær mig til að koma með þessa gagnrýni og alls ekki til þess að valda usla að ástæðulausu, enda er það ekki þannig sem ég stunda stjórnmál. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson minntist aftur á eldgos og almannavarnir. Þar erum við hv. þingmaður sammála um að það þurfi að vera nauðsynlegir hemlar til staðar o.s.frv. En aftur ítreka ég að það sem ég er að segja er að núna, jafnvel þó að við séum í ákveðinni lægð hvað varðar smitin sjálf, eins og hv. þingmaður bendir á, þá er samfélagið ekki í lægð. Ég tala fyrir sjálfa mig að maður er enn þá í smá sjokki yfir því hvernig þetta ár hefur farið og þá er kannski ekki besti tíminn til þess að vera að taka rosalega stórar og afdrifaríkar ákvarðanir. Mér líst svo á að útgöngubann sé það, eins og ég nefndi áður vegna hliðaraðgerða o.s.frv. Já, ef reynir á þá þarf þetta að vera til staðar, en ég vil benda hv. þingmanni á það að ég tel það vera til staðar. Samstaðan er til staðar. Þjóðin myndi eflaust strax (Forseti hringir.) fara í þær stellingar að fylgja útgöngubanni kæmi það til og það þarf ekki til á þessum tímapunkti og ég hef áhyggjur af umræðunni.