sóttvarnalög.
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvarið. Ég heyri málefnaleg rök hæstv. heilbrigðisráðherra í þessu máli og það má eiginlega brjóta þetta aðeins niður. Raunverulega er staðan sem er komin upp núna sú að löggjöfin er eftir á, þetta er eitthvað sem hefði þurft að samþykkja fyrr. Hæstv. ráðherra nefnir geislavá, geislavirknivá eða annars konar eiturefni í andrúmsloftinu. Þetta eru allt hlutir sem er alveg möguleiki á að hefðu getað gerst og jafnvel meiri möguleiki á að hefðu getað gerst fyrir einhverjum áratugum síðan. Þannig að við stöndum frammi fyrir því að lagabókstafurinn er aðeins á eftir, stjórnmálin eru á eftir. Hæstv. ráðherra bendir á að það sé ekki hægt að smella fingrum og fá Alþingi til þess að koma og setja ný lög og vissulega er það alveg satt og rétt og þarf svo að vera, það er mikilvægt í lýðræðisríki. Þá vil ég segja að við erum í ákveðinni klemmu hvað þetta varðar. Það getur vissulega komið upp að grípa þurfi til útgöngubanns. En nú höfum við náð sýkingum niður með aðgerðum sem eru núna í gangi, náð þeim alveg niður, það virðist glitta í bóluefni hvað varðar þennan tiltekna sjúkdóm, Covid-19, og það hefur ekki verið þörf á útgöngubanni á þeim forsendum að við búum öðruvísi en aðrar þjóðir að mörgu leyti og því spyr ég aftur ráðherra: Hvers vegna er ekki hægt að skipta þessu í tvennt og telja aðeins upp að tíu með þetta atriði? Það virðist ekkert aðkallandi að það þurfi að grípa til þess.