151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru algerlega gildar vangaveltur hjá hv. þingmanni. Það er alltaf spurning hversu langt er gengið nákvæmlega núna við breytingar á sóttvarnalögum. Páll Hreinsson nefndi að það væru tiltekin mál sem þyrfti að breyta svo fljótt sem auðið væri en önnur þyrftu að koma til skoðunar við heildarendurskoðun laganna jafnvel. En það er líka umhugsunarefni þegar hv. þingmaður segir: Nú eru lögin á eftir. Það er nákvæmlega það sem nefndin, sem ég fel að fara yfir sérstaklega IV. kafla sóttvarnalaga, kemst að niðurstöðu um þegar hún fer að rýna heimildir laganna. Þá kemst nefndin að raun um það að okkur vantar heimildir af þessu tagi til þess einmitt að vera á undan ef við myndum lenda í þvílíkum kringumstæðum. Ég held, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að ekkert okkar hefði órað fyrir því að við værum í þeim sporum sem við erum í í dag, að þingmenn og jafnvel virðulegur forseti væri með grímur í þingsal og við værum skikkuð til að hafa fjarlægðarmörk á milli okkar og við værum að tala um sóttkví og samkomubann, að ég tali nú ekki um útgöngubann, á virðulegu Alþingi.

Það sem ég vil segja og það sem ég vil botna þetta samtal mitt við hv. þingmann með, er bara að biðja hv. Alþingi og hv. velferðarnefnd um að slá ekki þetta ákvæði út af borðinu og setjast virkilega yfir það hvort ekki sé rétt undir þessum kringumstæðum að hafa augun opin gagnvart þeirri stöðu að framkvæmdarvaldið kynni að þurfa, undir einhverjum algerlega ófyrirséðum kringumstæðum, að grípa til svona íþyngjandi aðgerðar. Þá væri mjög mikilvægt að Alþingi væri búið að marka þeirri ákvörðun mjög skýrar skorður.