151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:32]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra þessi svör. Ég get talað fyrir sjálfa mig og ég mun vissulega í allri vinnu hvað varðar þetta frumvarp sem og önnur frumvörp hér á þingi og í velferðarnefnd skoða það með opnum huga og fara málefnalega yfir öll rök sem mæla með og móti og vega og meta og eiga málefnalegt samtal við ráðherra og aðra á þingi um þetta mál. Eftir stendur að ég set enn þá töluverða fyrirvara við þetta. Nú er það svo að við erum með stjórnvöld, sóttvarnayfirvöld og heilbrigðisráðherra sem þjóðin hefur borið mikið traust til. Það er ekki víst að það verði alltaf svo og þá er mikilvægt að það sé einhvers konar öryggishemill hjá þinginu, einhvers konar neyðarúrræði sem hægt er að grípa til, sé vald misnotað á einhvern hátt. Það er líka á þeim grundvelli og forsendum sem ég hef kallað eftir meira andrými hvað varðar þetta ákvæði frumvarpsins. En vissulega er málefnaleg vinna og upplýst ákvörðunartaka það sem við Píratar stöndum fyrir og ég mun vinna út frá.