151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er mikilvægt frumvarp sem við ræðum hér í dag, um breytingu á sóttvarnalögum, en þau lög eru frá 1997 og þeim hefur, eftir því sem ég sé best í frumvarpinu, ekkert verið beitt. Þau hafa tekið einhverjum breytingum en við höfum aldrei verið í ástandi sem líkist því sem við erum í í dag og þess vegna fagna ég þessu frumvarpi. Ég tel að það eigi ekki að bíða af því að þá finnum við ekki lengur í blóðinu í hvaða ástandi við erum. Þess vegna vil ég hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma með þetta frumvarp hingað inn núna. Við erum öll mjög meðvituð um það ástand sem við erum í núna, en það fennir fljótt yfir. Við nálgumst líka lok kjörtímabils og hér í þinginu eru órólegir tímar fram undan þannig að ég held að það sé mikilvægt að við fjöllum um þetta núna.

Þetta segi ég þó með þeim fyrirvara að alltaf þarf að vanda til og það þarf líka að vanda til þegar frumvörp eru borin hingað inn þrátt fyrir að Alþingi sé vissulega löggjafinn. Ég vona að hæstv. ráðherra hvetji sitt fólk í hv. velferðarnefnd til að horfa á það með opnum huga að gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu — sér í lagi af því að frumvarpið var unnið með miklum flýti og fékk ekki meðferð í samráðsgátt stjórnvalda — því að stundum hefur borið við í nefndum þingsins að lítill sveigjanleiki sé til að gera nauðsynlegar breytingar, á þeim forsendum að svo margir sérfræðingar séu til staðar í ráðuneytunum sem hafi meira vit en þeir sérfræðingar sem kallaðir eru fyrir nefndirnar. Þetta segi ég hér í upphafi ræðu minnar vegna þess að hæstv. ráðherra er í salnum og ég veit að hún á í góðu sambandi við sitt fólk í nefndinni.

Það sem mér finnst óþægilegt að sjá er að ekki var talin ástæða til þess, við samningu þessa frumvarps, þegar skipuð var nefnd eða ákveðinn hópur til að semja þetta frumvarp, að hafa fulltrúa sóttvarnaráðs með í þeim hópi eða að bera frumvarpið sérstaklega undir sóttvarnaráð. Í núgildandi sóttvarnalögum segir í 1. mgr. 6. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra skal skipa sjö manna ráð, sóttvarnaráð, til fjögurra ára í senn. Þar skulu eiga sæti sérfræðingar á sviði smitsjúkdómalækninga, bakteríufræði, veirufræði, kynsjúkdóma og faraldsfræði/heilbrigðisfræði, heilsugæslulæknir og hjúkrunarfræðingur með sérþekkingu á sviði sóttvarna.“

Í 3. mgr. 6. gr. segir:

„Sóttvarnaráð mótar stefnu í sóttvörnum og skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.“

Þessu tiltekna ákvæði og þar með hlutverki sóttvarnaráðs er verið að breyta í þessu frumvarpi, og þess þá heldur hefði maður ætlað að rík ástæða væri til þess að bera frumvarpið undir sóttvarnaráð. Í staðinn fyrir að sóttvarnaráð móti stefnu í sóttvörnum og skuli vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma er tekin ákvörðun um það í þessu frumvarpi að hafa ákvæðið þannig, með leyfi forseta:

„Sóttvarnaráð skal vera sóttvarnalækni til ráðgjafar um mótun stefnu í sóttvörnum og heilbrigðisyfirvöldum um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.“

Það virðist vera sem búið sé að fella út það hlutverk sóttvarnaráðs að móta stefnu í sóttvörnum. Það sýnist mér vera grundvallarbreyting á hlutverki sóttvarnaráðs. Ég veit ekki hvers vegna það gerist, kannski er eitthvað sem við hér á þinginu höfum ekki fengið fregnir af. Ég hef þó heyrt innan úr sóttvarnaráði að fulltrúum þar finnst harla lítið við sig rætt í því fordæmalausa ástandi sem er uppi. Mig langaði kannski að fá upplýsingar um hvernig stendur á því að sóttvarnaráð er ekki kallað til við allar þessar aðgerðir.

Þetta frumvarp varðar líka mjög persónuvernd og þá velti ég fyrir mér hvort mat á persónuverndaráhrifum hafi verið gert. Fram kom í andsvörum hæstv. heilbrigðisráðherra að Persónuvernd hafi rennt yfir frumvarpið, en mjög hefur verið kvartað undan því við okkur í velferðarnefnd að þau ráðuneyti sem eru á málefnasviði velferðarnefndar sinni illa þeirri skyldu sinni samkvæmt persónuverndarlögum að láta gera mat á persónuverndaráhrifum þegar frumvörp eru samin. Í þessu tilviki er í 10. gr. frumvarpsins verið að bæta við fjórum nýjum málsgreinum er varða vinnslu persónuupplýsinga, gagnaöflun, skrásetningu yfir þá sem sæta sóttkví, miðlun upplýsinga um einstaklinga sem sæta sóttkví o.s.frv. Þetta er auðvitað mjög mikilvægur þáttur og skiptir mjög miklu máli að vel sé vandað til og þess vegna þurfum við að hafa bæði belti og axlabönd þegar kemur að því. Ég skal þó hrósa frumvarpshöfundum fyrir það að í lokasetningu 10. gr. er sagt, með leyfi forseta:

„Slíkum gögnum“ — þ.e. öllum þessum persónuupplýsingum sem aflað er — „skal eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf vegna smitrakningar. Slík gögn er óheimilt að nota í öðrum tilgangi en þeirra var aflað.“

Ég mun leggja það til við hv. velferðarnefnd að spurt verði sérstaklega út í það hvort þetta orðalag ákvæðisins dugi til varðandi það að geyma ekki gögn.

Ég er innilega ósammála þeim sem halda því fram hér að ekki sé ástæða til að setja í lögin ákvæði um útgöngubann eða ekki ástæða til að skýra sóttvarnalögin. Ég tel ríka ástæðu til þess að setja einmitt ákvæði um útgöngubann í sóttvarnalögin vegna þess að við sjáum að það hefur verið nauðsynlegt að grípa til útgöngubanns í löndum sem eru ekki svo órafjarri okkur. Þá er eins gott að við séum með slíka heimild í sóttvarnalögum en styðjumst ekki við eitthvað út í bláinn. Ef einhvers staðar á að vera slíkt ákvæði þá er það í sóttvarnalögum.

Ég vil hins vegar koma með þá tillögu hér, til að hafa sagt það, og mun svo leggja það til líka í hv. velferðarnefnd, að slíka ráðstöfun — hvort sem um er að ræða samkomubann, lokun á atvinnustarfsemi, stöðvun atvinnurekstrar, útgöngubann eða fleira — sé, rétt eins og er í 15. gr. laganna, hægt að fara með fyrir dómstóla, af því að það er nú þegar í sóttvarnalögum, og verið að laga það lagaákvæði í þessu frumvarpi og útfæra það betur, varðandi einstakling sem þarf að lúta þvingunarráðstöfunum vegna sóttvarna. Sá einstaklingur getur borið ákvörðun stjórnvalda undir dómstóla og skal sú málsmeðferð fyrir dómstólum vera mjög hröð eins og oft er gert þegar um þvingunarráðstafanir er að ræða. Þá tel ég að það væri vænlegt að hafa þessi ákvæði eða þessi atriði einnig þannig að aðilar geti borið þá ákvörðun undir dómstóla, það sé hægt að taka bara þá ákvörðun, af því að, svo ég ítreki, það er full ástæða til að hafa ákvæði um útgöngubann í lögum. Það er rík ástæða til þess. Við hefðum fyrir ári síðan hneykslast mjög á því en í dag er ekki tilefni til að hneykslast á að setja skýrt ákvæði í lögin um útgöngubann, um samkomubann og stöðvun atvinnurekstrar af því að það er bara verið að gera víða um heim. Mér finnst eiginlega mjög sérstakt að hlusta á fólk gagnrýna það að skýrt ákvæði sé einmitt sett um það í lögin. En aftur segi ég: Slíkar ákvarðanir á að mínu mati að vera hægt að bera undir dómstóla með sama fyrirvara og með sömu málsmeðferðarreglum og eru í 15. gr. laganna eins og þau eru núna og verða með þeim breytingum sem eiga við þegar um einstakling er að ræða.

Aðeins varðandi niðurlag 12. gr. frumvarpsins sem varðar 14. gr. laganna, og svo 13. gr. frumvarpsins, en þá er ég aftur komin að stjórnvaldsákvörðunum og kæruheimildum versus dómstólaleiðinni. Í niðurlagi 12. gr. segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvaldsákvörðun um aðgerðir samkvæmt þessari lagagrein“ — og þá erum við að tala um einhverjar ráðstafanir gagnvart einstaklingum — „er kæranleg til ráðherra feli hún ekki í sér sviptingu frelsis.“ — Þá erum við að tala um ýmsar þvingunarráðstafanir nema frelsissviptingu. — „Kæra frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.“

Þetta er alveg það sama með að bera hlutina undir dómstóla, sú meðferð málsmeðferð frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Ef um er að ræða sviptingu frelsis þá getur einstaklingurinn farið með sitt mál fyrir dóm. Ég tel að ákvörðun stjórnvalds um frelsissviptingu einstaklings og stöðvun atvinnurekstrar og útgöngubann, af því það er auðvitað ákveðin frelsissvipting, ég legg þetta að jöfnu, eigi að bera undir dómstóla. Það er með þessum rökum sem ég vil benda á það.

Að öðru leyti verð ég að segja að ég hlakka til að vinna þetta mál, þó ekki svo hratt að við gerum það ekki vel, en ég tel fulla nauðsyn til að skerpa lög um sóttvarnir.