sóttvarnalög.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina og vænti góðs samstarfs við hv. velferðarnefnd og auðvitað vænti ég þess að það verði samstaða í nefndinni um að gera málinu til góða og bæta það eftir öllum kúnstarinnar reglum.
Vegna þess sem hv. þingmaður nefndi hér í lokin þá er auðvitað hægt að bera öll mál undir dómstóla eftir hefðbundnum leiðum. Hv. þingmaður velti upp sjónarmiðum sem lúta að persónuvernd. Í greinargerð með málinu er farið ítarlega yfir samstarfið við Persónuvernd og hvernig var farið að þeim leiðbeiningum sem þaðan komu. Það var í stuttu máli sagt farið að öllum þeim ábendingum sem Persónuvernd kom með, enda er þetta mjög viðkvæmt og mjög viðkvæmar upplýsingar sem eru þarna á ferðinni. Og ég vænti þess að hv. velferðarnefnd fái Persónuvernd á sinn fund til að ræða þetta betur.
Af því að hv. þingmaður nefndi það, og það er auðvitað rétt í meginatriðum, að sóttvarnalögunum hefur ekki verið beitt á þeim skala sem við erum að sjá þeim beitt núna, þ.e. opinberar ráðstafanir gagnvart almenningi í stórum stíl. Þó hefur þeim verið beitt gagnvart einstaklingum sem hafa þurft að sæta einangrun vegna smitsjúkdóma þannig að það er til í dæminu.
Loks vil ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega nálgun að því er varðar mikilvægi þess að setja ákvæði um útgöngubann í íslensk lög. Við sjáum að öflug lýðræðisríki sem hafa verið í forystu eru að beita slíkum íþyngjandi aðgerðum gagnvart íbúum sínum og það er mikilvægt fyrir upplýst lýðræðisríki að hendur framkvæmdarvaldsins séu bundnar með skýrum vilja löggjafans í þessu efni.