151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og fagna þeirri umleitan að bera frumvarpið undir Persónuvernd. En ég sé ekki að það hafi beinlínis farið fram mat á áhrifum frumvarpsins á persónuvernd. En kannski er það bara orðalagið sem er þess háttar. Ef slíkt mat hefur farið fram er það mjög af hinu góða. Við munum auðvitað fá upplýsingar um það í hv. velferðarnefnd.

Til að ítreka það — þó að við ætlum ekki að fara að flækja lagabálkinn um of — þá aðhyllist ég samt að þegar við erum með viðkvæm og mjög mikilvæg mál þá séu þau skýr og skýrt afmörkuð í lögum. Við vitum að ástandið getur skyndilega brostið á, eitthvað sem við vissum ekki fyrir ári síðan. Okkur grunaði ekki að við stæðum í þessum sporum í dag. Þá finnst mér óábyrgt að skilja það eftir. Vegna þess að það er auðvitað talað um að gæta eigi meðalhófs í ákvörðunartöku allri verður maður að sama skapi að geta ímyndað sér að í stóli heilbrigðisráðherra gæti setið einhver sem er kannski ekkert sérstaklega hrifinn af meðalhófi eða gætir ekki að slíku. Þess vegna þarf einhvern veginn að hafa þann varnagla að almenningur eigi aðild að máli þar sem hægt sé að bera slíka ákvörðun undir dómstóla. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum einhvern varnagla ef ske kynni að við sætum uppi með slíkan heilbrigðisráðherra.