151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:53]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðu hennar og ágæta yfirferð og sýn hennar á málið. Ég tek undir það með þingmanninum að hér er á ferðinni gríðarlega mikilvægt mál og í raun afurð þeirrar prufukeyrslu á sóttvarnalögum sem við stöndum núna í. Hv. þingmanni varð nokkuð rætt um sóttvarnaráð. Mig langar að inna þingmanninn eftir því hvort hún sé sammála mér um það, eða hvort hún vilji ræða það við mig á einhvern annan hátt, að hlutverk sóttvarnaráðs eins og það er í 6. gr. passi kannski ekki rosalega vel inn í hitann og þungann af faraldri. Það passar einhvern veginn að mínu mati hreinlega miklu betur inn í sambærilegt hlutverk og skimunarráð hefur, þ.e. að vera leiðbeinandi, vera í breiðu línunum og þess háttar. En það eigi kannski erfitt með að taka ákvarðanir eða ráðleggja um ákvarðanir frá degi til dags í miðjum faraldri. Þá velti ég því upp hvort þingmaðurinn telji að jafnvel þurfi að útskýra hlutverk ráðsins meira í þessu tilliti eða afmarka það skýrar. Ég er a.m.k. ekki sannfærður um að hægt sé að láta ráðið (Forseti hringir.) vera í raun, sérstaklega ekki þegar faraldur tekur marga mánuði eins og núna, ráðgefandi frá degi til dags eða í stökum ákvörðunum, skulum við segja.