sóttvarnalög.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég horfi á þetta ákvæði sem er mér nokkuð framandi. Ég get ekki sagt að ég hafi sofið með sóttvarnalögin undir koddanum síðustu ár. Ég held að það séu ekki margir sem hafi endilega verið þar. En það stendur í ákvæðinu að í ráðinu, með leyfi forseta:
„… skulu eiga sæti sérfræðingar á sviði smitsjúkdómalækninga, bakteríufræði, veirufræði, kynsjúkdóma og faraldsfræði/heilbrigðisfræði, heilsugæslulæknir og hjúkrunarfræðingur með sérþekkingu á sviði sóttvarna. Ráðherra skipar formann úr hópi ráðsmanna.“
Þarna er verið að reyna að taka utan um mögulega faraldra sem gætu dunið á landinu, eitthvað eru bakteríur og eitthvað er eitthvað annað. Við erum komin á slíkt svell að ég fóta mig auðvitað engan veginn í læknisfræðinni. Það er samt þannig að ef maður horfir á hlutverkið og hvað ráðið á að gera þá myndi ég halda að það ætti einmitt að vera þarna til ráðgjafar og vera kallað inn á svona tímum. Við erum með almannavarnaráð og við erum með ýmis ráð sem eru ekki á fundum daglega. Sóttvarnaráð er ekki að bregðast við frá degi til dags nema auðvitað þegar um er að ræða slíkt ástand. En maður veltir fyrir sér hvort það sé ekki einmitt á svona tímum sem sóttvarnaráð á að vera mjög virkt til að sóttvarnalæknir sé ekki í rauninni hálf stakur í verkum sínum.