sóttvarnalög.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er svolítið áhugaverð pæling með ráðið og það er eiginlega þess vegna sem mig langaði að ræða við þingmann hvort hún mæti það svo að við þyrftum þá sérstaklega að leggjast yfir þessa grein. Einhvern veginn hef ég — og best að taka það fram að ég hef ekki heldur sofið með sóttvarnalögin undir koddanum þó að þau hafi verið mér kunnug — ég hef litið svo á að sóttvarnaráð væri meira svona akademískt fyrirbæri, skulum við segja, svona bestu manna ráð, sem gætu séð fram í tímann, viðað að sér gögnum og bla, bla, bla og haft allan tímann í heiminum til þess. Þegar kæmi síðan að aðgerðunum kynni það að reynast svifaseinna. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að lagatextinn, eins og hann er skrifaður, kann með einhverju móti að gefa til kynna að hlutverk ráðsins sé meira í hita og þunga faraldurs en ég skynja það. Það kann vel vera að bakgrunnur minn sé kannski aðeins að trufla mig þar, hafandi verið á slíkum vettvangi og vitandi að þá þarf að taka ákvarðanirnar bara býsna hratt en einmitt byggðar á einhverjum leiðbeiningum sem kunna að hafa komið frá einhverju corpus eins og sóttvarnaráði. En það verður augljóslega gaman að velta þessu fyrir sér í hv. nefnd.