sóttvarnalög.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Ég gluggaði aðeins í greinargerðina og sá ekki hlutverk ráðsins skilgreint neitt frekar. En hafandi rætt við fulltrúa ráðsins virðist þeim líka hulið hvers vegna ráðið er ekki haft meira í ráðum í þessum faraldri. Vissulega þarf að hafa hraðar hendur við ýmsar ákvarðanatökur. Það hefur samt verið hægt að kalla til stóra hópa, jafnvel þegar þarf að taka ákvarðanir hratt. Þegar sóttvarnalæknir er sá eini sem hefur einhverja þekkingu á sóttvörnum, þó að við séum öll orðin sérfræðingar í því á einn eða annan hátt, þá held ég að enn þá ríkari ástæða sé til að hafa sóttvarnaráðið mjög virkt á slíkum tímum. Við þurfum að hóa í okkar allra fremsta fólk hvar sem það er og hafa stuðning fyrir sóttvarnalækni og fleiri sem þurfa að taka mjög erfiðar ákvarðanir sem hafa auðvitað mjög dramatískar afleiðingar. Þá er líka hægt að vísa bara í sóttvarnaráð þegar þarf að takast á við alls konar sérfræðinga, bæði hér innan húss og utan húss, sjálfskipaða sem fjölskipaða.