151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil hv. þingmann og málflutning hans hér ágætlega. Hann leggur til þessar leiðir og telur að umfjöllun um útgöngubann muni taka of langan tíma. Ég er ekki viss um það. Ég held að einmitt í þessu samhengi við aðrar aðgerðir og við svona stigvaxandi ákvarðanir, sem eru auðvitað verkfæri stjórnvalda undir slíkum kringumstæðum, sé heppilegt að ræða nákvæmlega þessa ýtrustu nálgun. Ég endurtek að ég hvet hv. þingmann og Pírata til dáða í því að freista þess að glíma við þetta verkfæri eins og þau hin sem eru þegar fyrir hendi í sóttvarnalögum og verið er að skerpa á með tillögunni.

En svo vil ég líka segja að óháð því hver afgreiðsla Alþingis verður á því frumvarpi sem er til umræðu þá er ástæða til heildarendurskoðunar á sóttvarnalögum. Það er eitthvað sem við verðum að gera þegar faraldurinn er að baki. Við verðum að gefa okkur góðan tíma í það og mikinn undirbúning. Það verður væntanlega verkefni annars þings.