sóttvarnalög.
Takk, forseti. Að sjálfsögðu mun ég horfa á öll sjónarmið og hlusta á þau. Ég hef hingað til ekki heyrt þau sjónarmið að það sé nauðsynlegt að gera þetta núna og mér finnst greinargerð með frumvarpinu sýna að ekki sé nauðsynlegt að gera það. Það hefur ekki verið tilefni til að nota þetta. Við náðum faraldrinum niður í fyrstu bylgju, með allri þeirri óvissu sem þá var, með þeim ráðstöfunum sem gerðar voru, líka í þessari bylgju. Mér sýnist að það gæti gert illt verra að reyna að glíma við þetta á sama tíma, vegna þess að traust er nokkuð sem maður fær með því að sýna traust og þjóðin hefur sýnt sóttvarnayfirvöldum traust. Ef við ætlum síðan að fara að setja inn ákvæði sem sýnir að við treystum fólki ekki finnast mér það ekki góð skilaboð. Ég mun þó að sjálfsögðu hlusta á þau sjónarmið sem koma fram í umræðunni og við sjáum hvernig málið þróast í nefndinni. Ef þetta atriði tefur málið, að við fáum inn þessar nauðsynlegu breytingar — Danmörk gerði það í sumar, fór í einhverjar smávægilegar breytingar á sínu máli til að laga hluti þar, en það er búið að taka lengri tíma hérna. Það væri því gott að ná að klára það sem fyrst og ekki láta neitt tefja það. En við sjáum hvernig þetta vinnst í nefndinni.