sóttvarnalög.
Herra forseti. Ég ætla ekki að þakka hæstv. forseta en ég ætla hins vegar að þakka heilbrigðisráðherra fyrir að flytja þetta frumvarp hér í dag. Ég held að það sé mikilvægt að þingið fái tækifæri til að ræða þá þætti sóttvarnalaganna sem fjallað er um í þessu frumvarpi og eru kannski meðal þeirra þátta sem mest hefur reynt á frá því að faraldurinn fór að gera vart við sig hér snemma á árinu. Í þessu samhengi hefur auðvitað verið kallað eftir því að ákveðnir þættir sóttvarnalaganna væru skýrðir og styrktir, heimildir stjórnvalda væru gerðar skýrari og styrkari. Sjálfur hef ég, bæði hér á þessum vettvangi og annars staðar, látið í ljós þau sjónarmið að í núgildandi sóttvarnalögum væru hugsanlega, ég hef ekki tekið af skarið með það, ekki nægilega skýrar og sterkar heimildir fyrir sumum þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til á undanförnum mánuðum.
Mér sýnist í fljótu bragði að með frumvarpinu sé ætlunin að renna styrkari stoðum undir þessi atriði og það er í sjálfu sér jákvætt. Margt í frumvarpinu sýnist mér einmitt horfa til betri vegar að því leyti að hlutirnir verða skýrari og sterkari. Engu að síður held ég að þingið þurfi einmitt að nota tækifærið til að fara yfir þessi atriði til að meta raunverulega hvað á heima í sóttvarnalögum að þessu leyti og hvað ekki. Hér hefur aðeins verið drepið á útgöngubann í því sambandi og ég tel að það sé einmitt hlutur sem við þurfum að ræða hérna, hvort tilefni sé til að bæta slíku úrræði við. Eins er það varðandi aðrar þær sóttvarnaráðstafanir sem hér eru taldar upp og settar fram með ítarlegri og skýrari hætti en hefur verið fram að þessu. Við þurfum auðvitað að fara yfir þetta og meta hvað á hér heima og hvað ekki.
Ég ætla ekki að fara í einstök ákvæði frumvarpsins en get þó nefnt það að alla vega við fyrstu yfirsýn sýnist mér að sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar þurfi kannski einkum að staldra við og gefa sér tíma til að skoða 10., 11. og 12. gr. frumvarpsins og þær heimildir sem þar er að finna. En ef ég nálgast þetta með almennum hætti þá er það þannig að þegar við ræðum sóttvarnir og sóttvarnaráðstafanir þá erum við auðvitað að finna leið til að samþætta tvenns konar meginsjónarmið. Annars vegar erum við að tala um, hvað eigum við að segja, heilbrigðisráðstafanir á grundvelli sóttvarnasjónarmiða til þess að vernda líf og heilsu fólks. Hins vegar þurfum við að skoða það út frá sjónarmiði borgarans sem verður fyrir einhverjum takmörkunum, skerðingu réttinda og öðru þess háttar vegna þeirra ráðstafana sem gripið er til.
Í þessu sambandi er kannski mikilvægast að horfa til ákvæða stjórnarskrárinnar sem og reyndar skráðra og óskráðra reglna bæði stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar sem fela í sér að vegna almannahagsmuna, og þar með talið heilsufarssjónarmiða, megi grípa til aðgerða sem takmarka eða skerða frelsi og réttindi sem við álítum að öðru leyti sjálfsögð og helg, þ.e. heilbrigðissjónarmið eru meðal þeirra sjónarmiða sem geta komið til og geta réttlætt skerðingu persónulegra réttinda af ýmsum toga. Í mínum huga er enginn vafi á því að í þeirri stöðu sem uppi er er tilefni til þess að skoða þetta. Það er tilefni til þess að grípa til sóttvarnaráðstafana en það er jafnframt tilefni til þess að skoða þær ráðstafanir sem gripið er til hverju sinni út frá því sem við getum kallað einstaklingsfrelsis- eða persónufrelsissjónarmiðunum. Það að um sé að ræða heilsufarslega ógn eða hættu af einhverju tagi gerir ekki að verkum að það sé hægt að gera hvað sem er. Heimildum bæði löggjafans og stjórnvalda eru settar ákveðnar skorður varðandi það hvað hægt er að gera, jafnvel þó að sannað sé og óumdeilt að heilsufarsleg sjónarmið séu fyrir hendi. Við þurfum í hverju tilviki fyrir sig að fara í gegnum ákveðin próf, ef við getum orðað það svo, til að gá, athuga, meta hvort þær ráðstafanir sem við erum að grípa til séu innan þess ramma sem stjórnskipun og meginreglur laga gefa okkur svigrúm til. Við þurfum með öðrum orðum að stíga gætilega til jarðar, jafnvel þótt tilefnið sé ríkt. Jafnvel þó að réttlæting sé fyrir hendi til að grípa til takmarkandi, skerðandi ráðstafana þurfum við að gera það með þeim hætti að það samræmist öðrum meginreglum sem við þurfum að virða.
Ég les það þannig að í frumvarpinu sé viðleitnin öll í þá átt. Við verðum hins vegar sem þing, sem þjóðþing, að skoða þetta með gagnrýnum huga út frá þessum sjónarmiðum.
Ég ætla svo sem ekki að fara djúpt í einstök atriði en vildi bara minna á að þegar við teljum að tilefni sé til þess að takmarka frelsi, stjórnarskrárvarin réttindi, með einhverjum hætti, þá þurfum við í fyrsta lagi að gæta þess að það sé gert með lögum og með skýrum lagaheimildum. Við þurfum að gæta þess að bæði lagaheimildin og þær ákvarðanir sem eru teknar á grundvelli lagaheimilda séu í samræmi við meginreglur um málefnaleg sjónarmið, um jafnræði, meðalhóf og annað þess háttar. Það eru ákveðin atriði sem þarf alltaf að hafa í huga í því sambandi. Það á jafnt við um lagasetninguna sem reglugerðarsetninguna sem og auðvitað einstakar ákvarðanir sem teknar eru á þessum lagalega grundvelli. Með því er ég m.a. að segja að það er nauðsynlegt, ef skerða á einhver réttindi af þessu tagi, að fyrir hendi sé skýr heimild í lögum. En það er ekki nægilegt að það sé skýr heimild í lögum heldur verður lagaheimildin líka að fela í sér að gætt sé jafnræðis, meðalhófs og annarra slíkra þátta sem taka þarf tillit til.
Það eru auðvitað margar ástæður fyrir því að gerð er krafa um skýrar lagaheimildir. Það er ekki sérviska í íslenska stjórnarskrárgjafanum sem er þar á bak við heldur viðurkennd sjónarmið í lýðræðisríkjum Vesturlanda, að það sé nauðsynlegt, ef skerða á stjórnarskrárvarin réttindi, að það sé gert af þjóðþinginu, af lýðræðislega kjörnu þjóðþingi, og að skerðingin sé ákveðin með þeim opna og gagnsæja hætti sem málsmeðferð í þjóðþinginu felur í sér. Þess vegna er mjög mikilvægt að heimildir til skerðingar séu settar fram í lögum frá Alþingi en ekki bara í reglugerðum frá ráðherra. Það er auðvitað líka í gert í þeim tilgangi að það geti þá átt sér stað, eins og á sér stað í þjóðþinginu, rökræða um þær heimildir sem verið er að veita, að það sé ekki ákveðið einhliða af handhafa framkvæmdarvalds heldur að það sé ákveðið í samráði, í rökræðu þar sem sá sem vill leggja til heimildir til skerðingar þarf að rökstyðja hvers vegna hann er að leggja það til og aðrir geta spurt gagnrýninna spurninga.
Þetta finnst mér sérstaklega mikilvægt í því sambandi vegna þess að fram að þessu höfum við verið í þeirri stöðu hér í þinginu að við höfum vissulega getað spurt ráðherra, sem hefur greinilega svarað því, hvað búi að baki einstökum ástæðum en það hefur verið svona eftir á skoðun. Það hefur ekki verið skoðun sem hefur átt sér stað áður en ákvarðanir eru teknar heldur miklu frekar eftir á prófun. Hún er ágæt, svo langt sem hún nær, en þegar verið er að taka ákvarðanir sem geta falið í sér skerðingu á mikilsverðum réttindum fólks þá eru líka ákveðin, og í mínum huga mjög sterk, rök fyrir því að það gerist einnig í aðdraganda ákvörðunartöku en ekki eftir á. Það er auðvitað þannig að sumar ákvarðanir þarf að taka með litlum fyrirvara, án þess að mikill aðdragandi eigi sér stað, og auðvitað verður löggjöfin að búa til þannig ramma að hægt sé að taka slíkar ákvarðanir. Aðrar ákvarðanir kunna hins vegar að vera þess eðlis að það á ekki að vera tiltökumál að bera þær undir þingið. Ég myndi vilja að sú þingnefnd eða þær þingnefndir sem fá þetta mál til umfjöllunar skoði það líka út frá því sjónarmiði, því að það er auðvitað töluvert önnur staða uppi þegar ákvarðanir þarf að taka á fyrstu dögunum eða fyrstu vikunum eftir að ástand skapast sem veldur heilsufarslegri ógn eða þegar þetta ástand hefur varað mánuðum saman, eins og líka er hugsanlegt og líka er okkar reynsla. Aðstaða okkar, t.d. í þinginu eða innan ríkisstjórnar eða annars staðar, til þess að meta ákvarðanir er allt önnur í dag en hún var í febrúar eða mars. Við höfum séð ýmislegt sem við höfðum ekki upplifað hér á landi, alla vega ekki um langan tíma, tekið ákvarðanir, prófað þær, öðlast reynslu, séð hvernig aðrar þjóðir bregðast við o.s.frv. Þannig að við getum sagt sem svo að þótt í sumum tilvikum kunni að vera nauðsynlegt að hafa í lögum heimildir fyrir stjórnvöld til að taka ákvarðanir án mikils aðdraganda þá eru aðrar þess eðlis að það getur verið eðlilegra og heppilegra að þær séu bornar undir þingið. Reynslan er auðvitað sú að ef á þarf að halda þá getur þetta þing unnið tiltölulega hratt og afgreitt mál tiltölulega hratt og ótal dæmi um það frá undanförnum árum að á það hafi reynt, engu að síður þó þannig að þingið hefur haft einhvern tíma, eitthvert andrými, til að vega og meta þær ákvarðanir sem þurft hefur að grípa til.
Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri að sinni en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé mikið og jákvætt skref að þetta frumvarp sé komið hér inn í þingið. Ég tel að í því sé margt til bóta en ég leyfi mér að segja (Forseti hringir.) að sumt kann að þurfa nánari skoðunar og umræðu við áður en það er afgreitt af hálfu þingsins.