151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við gerum væntanlega ráð fyrir því að þingið taki málið til þinglegrar meðferðar. Hv. þingmaður talar hér um að það sé mikilvægt í hverju tilviki fyrir sig að meta hvort farið sé að meginreglum stjórnsýslu og stjórnskipunar, skráðra og óskráðra reglna. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að að sjálfsögðu er það gert. Skárra væri það nú ef ráðherra undirritaði reglugerð án þess að reglugerðartextinn hefði fengið þvílíka yfirferð í ráðuneytunum. Til þess eru ráðuneytin. Og ráðherra byggir sínar reglugerðir á gildandi lögum. Ég hélt að ég þyrfti ekki að fara sérstaklega yfir það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé að leggja það til og hvort hann hyggist leggja það til í þinglegri meðferð að ákvörðunarvald um sóttvarnaráðstafanir verði flutt frá ráðherra til Alþingis, yfir á hið pólitíska svið, frá einum degi til annars. Við myndum þá færa þennan þátt framkvæmdarvaldsins, sem Alþingi hefur falið ráðherra með sóttvarnalögum, aftur til baka til Alþingis, sem væri óvenjulegt miðað við stjórnskipanina, og farið væri yfir hverja ákvörðun fyrir sig hér á Alþingi og um þær fjallað á pólitískum vettvangi. Það myndi þá frekar litast af pólitískum skoðunum þingmanna og þingflokka heldur en vísindalegri þekkingu eins og við viljum leitast við að gera sem förum með framkvæmdarvaldið.