sóttvarnalög.
Hæstv. forseti. Ég tel að það verði að gera greinarmun annars vegar á ákvörðunum sem þarf að taka frá degi til dags og sem þarf að taka með litlum fyrirvara og hins vegar meira stefnumarkandi ákvörðunum sem geta kallað á, að mínu mati, meðferð í þinginu. Ég hef ekki skýra mynd af því og ekki skýrar breytingartillögur hvað það varðar en ég held að það sé ekki tilviljun að gert er ráð fyrir því í stjórnarskránni, og í meginreglum okkar stjórnskipunar, að ákvarðanir sem fela í sér skerðingu eða heimildir til að skerða ýmis einstaklingsbundin réttindi verði að fara fram með lögum frá Alþingi. Ég held að í því þurfum við að skoða hvar dugi almennar reglugerðarheimildir og hvar þurfi að koma til sérstök skoðun á reglusetningu í hverju tilviki fyrir sig. Þá er ég ekki að tala um einstakar stjórnvaldsákvarðanir. Ég er ekki heldur endilega að tala um að reglugerðarvald verði tekið af ráðherra heldur að þær heimildir sem ráðherra eru veittar með lögunum séu hugsanlega enn skýrari og útfærðari en nú er og er í frumvarpinu og/eða að þær heimildir sem ráðherra eru veittar, til að taka ákvarðanir sem fela í sér skerðingu slíkra réttinda, séu með miklu skýrari hætti tímabundnar og komi til einhverrar endurskoðunar með skýrari og tíðari hætti en nú er gert ráð fyrir.