sóttvarnalög.
Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra hér orð sín. Ég vænti þess að hv. þingmaður hafi tekið eftir því að við höfum, við okkar sóttvarnaráðstafanir og þær aðgerðir sem hefur verið gripið til í faraldrinum, leitast við að þær gildi eins stutt og hægt er, einmitt vegna þess að um er að ræða íþyngjandi aðgerðir. Stundum hefur umræðan verið akkúrat í þá áttina að þær giltu of stutt og það þyrfti að reyna að hafa meiri fyrirsjáanleika og helst að láta þær bara gilda mánuðum saman. Ég hef ekki verið þeirrar skoðunar að það væri gott vegna þess að ég held að það eigi alltaf að vera undantekning að við séum að beita aðgerðum af þessu tagi, það eigi aldrei að verða okkur tamt eða verða einhvers konar vani.
Hv. þingmaður svaraði mínu andsvari með því að vísa til einhvers sem hann kallaði svona hinar stærri ákvarðanir sem væru stefnumarkandi á einhvern hátt en væri kannski ekki að vísa til þessara, hvað á ég að segja, venjubundnu aðgerða sem við erum að tala um í reglugerðum. Mig langar að biðja hv. þingmann að skýra aðeins betur hvað hann á við og hvort hann gæti nefnt hér dæmi um stefnumarkandi ákvarðanir í ferlinu sem við erum að glíma við núna, þ.e. frá því að Covid-19 nam hér land. Hvaða stefnumarkandi ákvörðun telur hann að hafi verið tekin í þessu ferli og hefði mátt koma hér til umfjöllunar á Alþingi sem frumvarp?