151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[18:42]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna fram komnu frumvarpi, í það minnsta að það sé komið fram, ekki seinna vænna, myndi ég segja, eins og fram hefur komið í máli mínu nokkrum sinnum hér á þingi og á opinberum vettvangi. Mér þykir kannski rétt að draga fram viðkvæðið sem hefur verið algengt núna í á níunda mánuð, bráðum tíu mánuði: Þetta eru fordæmalausir tímar. Ég bið virðulegan forseta að velta því aðeins fyrir sér með mér hvað það er sem nákvæmlega er fordæmalaust á þessum tímum, vegna þess að við höfum staðið fyrir heimsfaröldrum áður. Við höfum bæði haft verri og vægari pestir en þá óáran sem geisar núna um heimsbyggðina. Ég nefni bara spænsku veikina fyrir meira en 100 árum síðan en svo hafa riðið yfir árlegar inflúensur sem hafa verið misskæðar. Við höfum sem betur fer núorðið bóluefni sem gerir okkur betur í stakk búin til þess að kljást við inflúensuna. En þó er það þannig að inflúensa heimtir allt of mörg líf á ári hverju á Íslandi, síðustu áratugina allt upp í 40 mannslíf, a.m.k. eitt árið, og 25 fyrir ekki svo mörgum árum. Þetta er svona til að setja hlutina í samhengi. Heimsfaraldrar eru ekki fordæmalausir, það er það sem ég vildi sagt hafa.

Hvað er það þá sem er fordæmalaust? Ég held að það sé algerlega fordæmalaust, viðbrögðin sem við höfum gripið til vegna þessa tiltekna faraldurs. Það á við á Íslandi og úti um allan heim. Þannig að vissulega eru fordæmalausir tímar en ég held að það sé einkum og sér í lagi vegna viðbragðanna.

Þetta frumvarp er um margt ágætt og nauðsynlegt eins og fram kom í áliti Páls Hreinssonar, sem hann gerði að beiðni stjórnvalda, forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra, þegar hann var beðinn um að meta valdmörk heilbrigðisyfirvalda og löggjafans. Þá var það hans álit að það lægi mjög á að breyta sóttvarnalögum, einkum í ljósi þeirra aðgerða sem gripið hafði verið til. Á það var líka bent á að það væri mjög nauðsynlegt að endurskoða lögin í heild sinni og færi auðvitað allra best á því. Ég vænti þess að sú vinna sé hafin í heilbrigðisráðuneytinu, vinna við heildarendurskoðun laganna, burt séð frá þeim breytingum sem hér verða.

Ég ætla kannski ekki frekar en aðrir hv. þingmenn sem hér hafa talað í dag að fara í miklum smáatriðum yfir efnislega þætti frumvarpsins en þó vil ég nefna nokkur atriði. Ég get tekið undir með mörgum hv. þingmönnum sem hér hafa talað og það eru atriði sem vekja sérstaka athygli mína og ég tel að þurfi að ræða vandlega hér við þinglega meðferð. Það er margt nýtt í þessu frumvarpi, það er verið að kynna til sögunnar ný hugtök, ný viðbrögð í sóttvarnalegu tilliti, það er a.m.k. nýtt í skilningi laganna en þó kannski ekki svo nýtt ef við lítum til reynslunnar síðustu tíu mánuði. Þar kann einmitt að vakna upp spurningin hvort hér sé verið að renna lagastoð undir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hingað til. Ætla ég ekki að svara því, enda ekki í stöðu til að gera það, og er kannski ekki heldur aðalatriðið við meðferð þessa máls.

Sem dæmi um nýmæli í þessu lagafrumvarpi eru ákvæði um skimanir, um smitrakningu og smitrakningu í þeim tilgangi að boða menn í skimun. Þetta er nýmæli. Núgildandi lög hafa ekki gert ráð fyrir þessum aðgerðum.

Svo vil ég vekja sérstaklega athygli á því sem ég held að þurfi að skýra miklu betur í þessum lögum, einkum og sér í lagi í ljósi reynslunnar og þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í hingað til á grundvelli núgildandi laga. Það má deila um það hvort núgildandi lög hafi heimilað það. Það eru aðgerðir gagnvart heilbrigðu fólki. Það eru auðvitað skýrar aðgerðir í núgildandi lögum, og í þessu lagafrumvarpi er líka fjallað um þær, gagnvart sýktu fólki og fólki sem grunað er um að vera sýkt. Einhvers staðar sá ég að hugtakið „rökstuddur grunur“ um að fólk sé sýkt, hafði verið fellt úr við vinnslu frumvarpsins. Ég held ég fari rétt með að það hafi komið fram athugasemd eða hvort það hafi eitthvað breyst við samningu frumvarpsins eða hvort lagt sé til að það falli brott í núgildandi lögum. Það er svo sem aukaatriði en það er talað um aðgerðir gagnvart fólki sem er grunað um að vera sýkt.

Það er hins vegar þriðji hópur fólks og það er fólk sem ekki er hægt að telja að sé grunað um að vera sýkt heldur bara fólk sem kannski er óvart á einhverjum stað en þó ekkert endilega í þannig samneyti við fólk sem staðfest er að sé sýkt. Þá er heldur langt gengið að mínu viti að gruna það fólk sjálfkrafa um að vera sýkt. Ég tel að þetta þurfi að koma sérstaklega til skoðunar í frumvarpinu. Ég nefni dæmi í 11. gr., um aðgerðir gagnvart fólki á landamærum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að farsóttir berist til og frá Íslandi, en þar er fjallað um að hægt sé að kveða á um að krefja ferðamenn að undirgangast læknisskoðun sem er eins lítið nærgöngul og unnt er til að ná markmiði. Svo er hér kveðið á um að ekki skuli beita inngripum nema gagnvart þeim sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir smiti.

Það er ansi viðurhlutamikið að telja, í ljósi allra þeirra rannsókna sem virðast liggja fyrir, að allir í t.d. flugvél, sem hafa ferðast með einum eða tveimur eða jafnvel fleirum smituðum, séu smitaðir. Þvert á móti höfum við mörg dæmi um það að menn hafa ferðast með berklasjúklingum, það koma reglulega upp slík tilvik, og ekki hefur þótt ástæða til að grípa til sérstakra varúðarráðstafana gagnvart öllum í slíkum ferðalögum. Ef frumvarpshöfundar halda að með þessu sé hægt að setja alla t.d. í flugvél undir sama hatt þá held ég að það sé langt seilst í því. En þetta hvet ég nefndina til að ræða.

Ég vil sérstaklega nefna það sem mér finnst stinga í stúf og það er breytt hlutverk sóttvarnaráðs. Ég hef tekið eftir því að sóttvarnaráð hefur ekki mikið verið til umfjöllunar vegna þessara aðgerða, a.m.k. lítið leitað til sóttvarnaráðs eða eftir áliti sóttvarnaráðs af fjölmiðlum. Það kemur mér á óvart að menn skuli ekki hafa áhuga á að heyra sjónarmið þeirra sem sitja í sóttvarnaráði, en það eru sérfræðingar af ýmsu tagi, læknar og fleiri, annars konar heilbrigðisstarfsfólk líka. Í núgildandi lögum er sóttvarnaráði falið að vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í sóttvarnamálum. En hér er lagt til að sóttvarnaráði sé falið að vera sóttvarnalækni til ráðgjafar við stefnumótun í sóttvarnamálum og þar með er sóttvarnalækni falin sú stefnumótun. Ég myndi fyrir hann halda að hætta væri á að þá glatist sérfræðiþekking, sem mörgum er nú svo tamt að telja mikilvæga í öllum þessum efnum, vegna þess að sóttvarnaaðgerðir og sóttvarnamál varða ekki bara einn tiltekinn smitsjúkdóm. Við mótun stefnu í sóttvarnamálum hlýtur að þurfa að horfa á málið mjög heildstætt og frá mörgum sjónarhólum, bæði læknisfræðilegum, siðfræðilegum og lögfræðilegum. Ég hefði haldið að það væri einmitt frekar tilefni til að efla sóttvarnaráð í sínum störfum og gefa þannig sóttvarnalækni meira svigrúm fyrir verkefni sín en leggja ekki enn frekari byrðar á það embætti sem heyrir undir landlækni. Þetta held ég að nefndin ætti að ræða mjög ítarlega.

Svo að lokum vil ég nefna útgöngubann sem ég hef heyrt marga hv. þingmenn nefna hér og gjalda varhuga við og ég tek undir þau varnaðarorð. Mér finnst engin rök standa til þess að menn setji hér almenna lagaheimild fyrir svo gríðarlega íþyngjandi aðgerð og alls ekki með þeim hætti sem hér er lagt til, sem er sá að það sé á hendi sóttvarnalæknis eins að meta það og leggja það til við ráðherra að setja reglugerð um allsherjarútgöngubann. Þetta finnst mér allt of mikið og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta sé allt of mikið valdframsal til embættismanna og ráðherra. Þess utan vil ég líka gjalda varhuga við þeirri hugmynd að Alþingi verði sett í þá stöðu að setja almenn lög um útgöngubann vegna þess að Alþingi, eins og auðvitað stjórnsýslan öll, er bundið við ákvæði stjórnarskrárinnar um tiltekin grundvallarréttindi manna og getur auðvitað ekki leyft sér setja hvers kyns lög, getur ekki skert þessi mikilvægu réttindi með almennum hætti. Ef nauðsyn ber til að skerða þessi réttindi þá þarf það að vera í mjög afmörkuðum tilgangi og mjög skýrum og öll lagaákvæði sem lúta að slíkri skerðingu þurfa að vera mjög skýr.

Ég tek sem dæmi að telji menn mjög nauðsynlegt að setja útgöngubann vegna kórónuveirunnar myndi ég halda að lagasetningu um það þyrfti að vera: Lög eru sett um útgöngubann frá kl. tvö 1. desember til kl. 3 10. desember, eða eitthvað svoleiðis, eða skemmri tíma með tilteknum rökstuðningi. Slíkt mál fengi þinglega meðferð þar sem menn fengju kost á því að vega og meta öll gögn og raunverulega nauðsyn á að grípa til slíkrar lagasetningar. Mér finnst það fátækleg rök í greinargerð að vísa til útgöngubanns með því að það hafi verið nánast venjan í löndunum í kringum okkur, regla fremur en undantekning að setja útgöngubann af ýmsu tagi. Ég vil í því sambandi benda á það að í mörgum löndum standa nú yfir málaferli um slíkt útgöngubann og í sumum löndum, m.a. í Þýskalandi, hefur verið felldur dómur, a.m.k. í undirrétti, sem hefur kveðið upp úr um ólöglega ákvörðun um útgöngubann. Þessi mál verða, held ég, mjög til umfjöllunar í lögfræðinni úti um allan heim á næstu misserum. Þannig að ég held að það sé ekkert tilefni fyrir okkur að ana að því að fara að setja lagaheimild til handa ráðherra að setja útgöngubann með þeim hætti sem gert er í þessu frumvarpi.

Ég vil rétt að lokum nefna, ég sé að ég hef punktað það hjá mér, að það stingur í stúf hér líka sú aðferð sem lögð er til við að frelsissvipta fólk sem er ekki samvinnuþýtt þegar það þarf að koma því í sóttkví eða einangrun. Hér er lagt til að það verði gert án dómsúrskurðar. En þó er því haldið til haga að viðkomandi sé að vissu leyti heimilt að skjóta málinu til dóms. Þetta er algjört nýmæli og algerlega andstætt réttarfarsreglum okkar þar sem gert er ráð fyrir að menn leiti fyrir fram heimildar dóms fyrir frelsissviptingu. Ég held að það ætti að skoða þetta sérstaklega.