151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[19:00]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað þannig að það eru engin mál undanþegin dómstólum. Menn geta skotið öllum málum fyrir dóm. Það þarf ekkert sérstaklega að taka það fram í lögum, eins og menn segja hér, að heimilt sé að bera undir héraðsdóm. Það er reyndar vitnað hérna í stjórnarskrána líka, sem er svo sem alveg ágætt því að auðvitað er góð vísa aldrei of oft kveðin. En hér segir sem sagt að aðgerðir sem mælt er fyrir í þessari stjórnvaldsákvörðun um að frelsissvipta fólk, setja í einangrun eða sóttkví megi bera undir héraðsdóm svo sem stjórnarskráin kveður á um. Ég er ekki að gera athugasemdir við það. Ég er að gera athugasemdir eða benda á það a.m.k. að ég held að nefndin ætti að skoða þetta sérstaklega. Hér gert ráð fyrir því að sóttvarnalæknir geti ákveðið að viðkomandi sé settur í sóttkví og einangrun. Hann getur jafnvel tekið þessa stjórnvaldsákvörðun munnlega, það er sérstaklega tekið fram. Það er svo sem heimilt samkvæmt stjórnsýslulögum almennt að taka ákvarðanir munnlega en það þarf þó, eins og kveðið er á um hérna, að gera það síðan skriflega svo fljótt sem kostur er.

En ég er að benda á að það færi betur á því að menn létu það ekki í hendurnar eða frumkvæði hins frelsissvipta að bera það undir dóm — ég nefni það bara að menn geta verið í alls konar ástandi ef það er verið að frelsissvipta og setja menn í sóttkví vegna veikinda — heldur sé það gert eins og þegar verið er að frelsissvipta annað fólk, að það sé óskað eftir dómsúrskurði fyrir fram þar sem lagt er fyrir dóm og færð rök fyrir því að viðkomandi þurfi að frelsissvipta. Þetta þarf ekki að kalla á svo langan tíma. Menn geta gefið sér í lögunum ákveðna klukkutíma eða einn sólarhring eða eitthvað svoleiðis, en að innan sólarhrings skuli málið borið undir dóm.