151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[19:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Í 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar segir að hver sá sem sé af öðrum ástæðum sviptur frelsi eigi rétt á því að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða megi. Reynist frelsissviptingin ólögmæt skal hann þegar látinn laus. Það er þetta ákvæði sem á við um 14. gr. sóttvarnalaga eins og þau eru í dag, það er alla vega það sem mér var talin trú um og ég hef talað við ráðuneytið og fleiri aðila. Og nú á að láta það gilda líka um sóttkvína. Framkvæmdin hefur ekki verið nógu skýr þótt stjórnarskráin segi þetta. Mér finnst það gott atriði ef verið er í þessu frumvarpi að færa þetta í áttina að því að vernda þetta stjórnarskrárbundna ákvæði. Þá er þetta bara eins og þegar lögreglan handtekur fólk og þarf að bera það undir dómara eins fljótt og verða má, það er eins og ef sagt er: Þú verður að fara í einangrun af sóttvarnaástæðum. Þannig er það í lögunum í dag, það verður að bera þetta undir dómara. Það er ekki eins og fólk þurfi sjálft að hafa frumkvæði að því að borga fyrir lögmann og fara fyrir dómara heldur er það er framkvæmdarvaldið sem verður að sinna því sjálft að fara með málið fyrir dómara og þessi einstaklingur getur komið fyrir dómarann í því ferli. Þannig er það með 14. gr., hefur mér verið talin trú um. Mér sýnist frumvarpið ætla að láta það ná líka yfir 15. gr., þ.e. um sóttkví, að það sem á við um einangrun í 14. gr. muni líka ná yfir sóttkví í 15., eins og Páll Hreinsson leggur til. Mér sýnist verið að gera það og þá er það gott en ef þingmaðurinn hefur einhvern annan skilning á því væri gott að vita það því að þá þurfum við að athuga það sérstaklega.