151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[19:04]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svo sem veit ekki hvernig þetta er nákvæmlega í lögunum núna. Ég er bara að horfa á frumvarpið eins og það er í dag og bendi á að á þetta hefur ekki reynt samkvæmt núgildandi lögum. Það hefur ekki reynt á það að menn séu ekki samvinnuþýðir, að sýktir einstaklingar fari ekki … (JÞÓ: Nokkrum sinnum.) — Að mér vitandi hefur ekki beint á þetta reynt. En það er hins vegar alveg ljóst að reyni á slík mál, þannig að menn séu í rauninni nauðungarvistaðir eða með lögregluvaldi, þá eiga þeir að sjálfsögðu rétt á því að bera það mál undir dómstóla. Ég er bara að velta því upp hvort það sé nægilegt að tryggja, sem er bara tryggt með stjórnarskránni, að menn geti borið þetta undir dómstóla eða hvort það væri jafnvel heppilegra að hafa það í þessu frumvarpi þannig að sóttvarnalæknir ætti fortakslaust að fá dómsúrskurð fyrir öllum slíkum stjórnvaldsákvörðunum. Hann getur að sjálfsögðu mælt fyrir um það en síðan yrði kveðið á um að innan sólarhrings, eða eitthvað slíkt, skyldi sóttvarnalæknir eða stjórnvöld staðfesta ákvörðun sína með dómsúrskurði. (JÞÓ: Þannig er það í dag.) Það kann að vera að það sé þannig í dag, það getur verið að ég sé að misskilja þetta hérna, og þá er kannski verið að hverfa frá því kerfi sem er í dag. Þá fyndist mér það ekki eðlilegt. En ég er ekki viss um að það hafi reynt svo mikið á þetta, eins og ég segi, vegna þess að sem betur fer hafa sýktir aðilar verið mjög samvinnuþýðir og vonandi verður engin breyting þar á.