151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

87. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995. Meðflutningsmaður er Guðmundur Ingi Kristinsson, minn ágæti flokksbróðir og samstarfsmaður hér. Ég ætla að fara stuttlega yfir nokkrar tölur og mér finnst ástæða til að nefna þær því í raun og veru erum við aðallega að berjast fyrir þessu þar sem löggjafinn hefur látið hjá líða að láta þessar bætur fylgja verðlagsþróun til margra ára.

Eins og segir í 1. gr. frumvarpsins viljum við að eftirfarandi breytingar verði gerðar á 7. gr. laganna:

Í stað þess að í a-lið 2. mgr. standi 250.000 kr. viljum við endilega að þar standi 435.000 kr.

Í stað þess að í b-lið 2. mgr. standi 5 millj. kr., sem virðast vera hámarksmiskabætur alveg sama hversu alvarleg áföllin eru, þá leggjum við til í frumvarpinu að þar komi 8,7 millj. kr.

Í c-lið 2. mgr. viljum við að í stað 3 millj. kr. komi 6.520.000 kr.

Í stað 2,5 millj. kr. í d-lið 2. mgr. viljum við að komi 4.350.000 kr.

Í stað 1,5 millj. kr. í e-lið 2. mgr. viljum við að komi 2,7 millj. kr.

Þá viljum við að við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

„Fjárhæðarmörk skv. 1. og 2. mgr. skulu taka breytingum í upphafi hvers árs í samræmi við þróun launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils, þó þannig að þær hækki aldrei minna eða lækki meira en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Í 2. gr. frumvarpsins segir svo að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 2021, sem sagt rétt handan við hornið.

Frumvarpið var áður flutt á 149. og 150. löggjafarþingi. Ég hef mælt fyrir þessu máli núna á tveimur löggjafarþingum en við greinilega frekar dræmar undirtektir þannig að það er nokkuð ljóst að þolendur afbrota mega halda áfram að búa við það að fá enga leiðréttingu á þessum bótum í gegnum verðlagsþróun, gengisfall krónu og hækkandi afkomu og hvaðeina. Það er eiginlega alveg með ólíkindum. Hér er nú ekki verið að gera neitt annað en kannski að taka til í lagabálknum sem slíkum og það ætti í rauninni að vera sjálfsagt mál. Ég flyt þetta frumvarp óbreytt að því undanskildu að fjárhæðum hefur verið breytt til samræmis við þróun launavísitölunnar frá því að frumvarpið var upphaflega lagt fram á 149. löggjafarþingi ásamt því að uppröðun greina og gildistöku hefur verið breytt.

Bótagreiðslur sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota takmarkast við fjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Þær fjárhæðir sem þar er kveðið á um hafa verið óbreyttar, og takið nú eftir, frá árinu 2012. Í átta ár hefur löggjafanum ekki þótt ástæða til að stíga inn og breyta þessari grein skaðabótalaganna sem kveður á um bótarétt þeirra sem hafa orðið þolendur afbrota. Löggjafanum hefur ekki þótt ástæða til þess að líta við því. Hér er gott tækifæri fyrir stjórnvöld, og það núna á kosningavetri, að safna í sarpinn og sýna djörfung og dug. Hér þarf ekki mikla djörfung og dug af því að við erum bara að tala um leiðréttingu. Við erum að reyna að koma þessum bótarétti og þessum krónum í það verðgildi sem þær voru fyrir átta árum síðan, árið 2012, það er ekki flóknara en það.

Eins og við vitum öll hafa orðið breytingar á verðlagi og jafnframt hafa bætur ákvarðaðar í refsimálum þróast í samræmi við þær verðlagsbreytingar. Það er ágalli á gildandi löggjöf að þessar fjárhæðir þróast ekki í samræmi við verðlag. Þegar fjárhæðum var breytt síðast, í júní 2012, stóð launavísitalan, hugsið ykkur, miðað við grunn frá 1989 samkvæmt vefsíðu Hagstofu Íslands, í 433,1 stigi en nú stendur hún í 734,6 stigum. Þá er ekki ósennilegt að hún kunni að hækka verulega í framtíðinni. Það verður í rauninni að stíga inn og breyta því ósanngjarna fyrirkomulagi sem er látið vera þarna eins og hippi í handbremsu, gjörsamlega ryðgað fast. Af framangreindum ástæðum er lagt til að fjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 7. gr. hækki, eins og ég hef áður sagt.

Sífellt kemur betur í ljós hve mikil áhrif afbrot hafa á líf og líðan brotaþola. Erfitt er að meta slík áhrif út frá læknisfræðilegum viðmiðum. Þótt líkamleg áhrif brots séu metin er erfiðara að meta andleg áhrif, miska, þau áhrif geta oft komið fram eða aukist löngu eftir að brot er framið og þar til bætur eru dæmdar eða ákvarðaðar. Þá er óskandi að slík hækkun á ábyrgð greiðslu ríkissjóðs veiti dómstólum hvatningu til að ákvarða hærri bætur fyrir miska í alvarlegri málum en tíðkast hefur.

Einnig er lagt til að til frambúðar hækki fjárhæðir bóta samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna árlega í samræmi við breytingar á launavísitölu, eins og ég tók fram í upphafi. Það er ákaflega mikilvægt að við tengjum allt það sem við erum að gera við launavísitöluna til þess að ekki verði alltaf kaupmáttarrýrnun, til að þessar fáu krónur sem er verið að rétta þó frá ríkisvaldinu rýrni ekki alltaf og verði minni og minni þar til þær enda eins og einhver pínulítill dvergur úti í horni.

Einnig skal lágmark ábyrgðar á bótakröfu hækka, samanber 1. mgr. 7. gr., í samræmi við breytingar á launavísitölu. Eðlilegt er að breyting á fjárhæðum skuli fara fram um hver áramót og miðað verði við þróun launavísitölu árið þar á undan. Þar sem launavísitala kann að lækka ef efnahagur versnar skyndilega er lagt til, eins og ég taldi upp áðan, að miðað verði við vísitölu neysluverðs ef hún hefur hækkað meira eða lækkað minna á gefnu ári en launavísitala.

Ég ætla í rauninni ekki að hafa fleiri orð um þetta, ekki nema bara að ítreka að það er í rauninni kaldhæðnislegt setja þennan lagabálk og þessa grein til þolenda afbrota gjörsamlega út í kuldann og ætla í engu að leiðrétta og bæta í rauninni þó það sem átti að vera bætt, að því leyti sem hægt er. Ég mun bara hvetja allan þingheim til dáða að því leyti til að við erum hér eingöngu, og ég ítreka það, að kalla eftir leiðréttingu sem hefði átt að vera búið að gera fyrir mörgum árum síðan og upphæðirnar hefðu átt að fylgja í þessi átta ár eðlilegri þróun á markaði, launavísitölu í þessu tilviki.