151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

almannatryggingar.

90. mál
[19:40]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (frítekjumark vegna lífeyristekna). Ég kem hér upp og mæli fyrir þriðja máli Flokks fólksins, flokksins sem segir: Fólkið fyrst, svo allt hitt. Áhuginn fyrir almannatryggingum og því sem við erum að gera hér er ekki mikill. Við erum hér tvö í þingsalnum, ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, og höldum okkar striki eins og við höfum lofað, eins og við höfum alltaf gert. Án stuðnings almennings og kjósenda værum við ekki hér og þá væri ekki verið að mæla fyrir neinu af þessum frumvörpum, engu þeirra. En með mér á frumvarpinu er sem fyrr minn ágæti þingflokksbróðir og samflokksmaður hér í þinginu, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson.

Í 1. gr. frumvarpsins segir:

„4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Þá skal ellilífeyrisþegi hafa 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna lífeyristekna.“

Við í Flokki fólksins höfum tvisvar áður mælt fyrir frumvarpi, sem er á biðlista að komast inn, þar sem við mælum fyrir því að allar skerðingar á atvinnutekjur aldraðra verði afnumdar. Hvað eru margir aldraðir sem virkilega treysta sér til þess, þegar þeir eru komnir á eftirlaunaaldur, að halda áfram að vinna? Af hverju ekki að hvetja þetta fólk til dáða? Af hverju frekar að skerða það og skemma fyrir því í allar áttir þrátt fyrir að ríkissjóður hafi engu að tapa en allt að vinna? Ég gef ekki mikið fyrir þá skýrslu sem við fengum að líta frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra, með fullri virðingu, því að forsendurnar fyrir henni, hvernig hún hafði verið unnin og annað slíkt, hef ég í raun aldrei séð. Þær eru algjörlega út úr öllu korti í samanburði við áður gerðar skýrslur sem sýndu fram á það að með því að afnema allar skerðingar á atvinnutekjur aldraðra myndi ríkissjóður græða. Það var sú skýrsla og sú úttekt sem við höfðum áður fengið í hendur frá sérfræðingi.

Það sem við erum að mæla fyrir núna, með þessu frumvarpi, er hins vegar 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna lífeyristekna. Ég ætla að taka fram að 2. gr. hljóðar upp á að lög þessi öðlist gildi strax í janúar 2021.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að frumvarpið hafi verið lagt fram á 149. löggjafarþingi, 896. mál, og 150. löggjafarþingi, 83. mál, en hafi ekki hlotið afgreiðslu. Af því sem við erum að brasa hérna ratar eitt og eitt mál til almennings og fjölmiðla. Við erum frekar þessi litli flokkur sem er sagður vera pínulítill, jafnvel þó að hlutfallslega séum við að leggja einna flest mál fram. Það er einhver þöggunartaktík þarna úti í bæ. Það er ekki vinsælt að vera með svona fátæktarflokk sem vill rjúfa fátæktargildru þeirra sem eru settir hér inn í samfélagsgerðina eins og annars, þriðja og fjórða flokks samfélagsþegnar. Það er nákvæmlega það sem við, ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, höfum þurft að lifa með í gegnum okkar fötlun. Þess vegna standa þau sem eru í almannatryggingakerfinu okkur mjög nærri, snerta okkur í hjartastað, því að við höfum staðið nákvæmlega í þeim sporum og vitum sannarlega hversu ömurlegt það er að ná aldrei endum saman og vera alltaf að berjast og vita aldrei hvernig í ósköpunum maður kemst af, hvað þá þegar jólin eru fram undan. Hamingjan góða, þvílíkur kvíði, þvílík vanlíðan fyrir þá sem eiga ekki fyrir salti í grautinn og eru með börnin sín og fjölskylduna sína til að hugsa um, og eru með hugann við það sem okkur hefur verið kennt að væru heilög jól, að geta ekki gert nokkurn skapaðan hlut, geta ekki veitt sér nokkurn skapaðan hlut, geta ekki keypt eina einustu jólagjöf, eiga ekki einu sinni fyrir steikinni á jólaborðið; þurfa að ganga bænarveginn milli Heródesar og Pílatusar til að betla sér mat. Það er til ævarandi skammar að slíkir þjóðfélagshópar skuli vera til í samfélaginu. Ég er algerlega að verða orðlaus yfir því á meðan hér er verið að gaspra um milljarða skuldasöfnun í allt öðrum tilgangi en til að taka utan um þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu.

Þetta frumvarp er sem sagt lagt fram í þriðja sinn. Það lýtur að lífeyrisréttindum. Sá einstaklingur sem á lífeyrisrétt hefur örlítið meira en sá sem er á strípuðum bótum almannatrygginga. En það breytir ekki þeirri staðreynd að sá sem á einhvern lífeyrisrétt á hann vegna þess að hann hefur verið á vinnumarkaði. Það er búið að lögþvinga af honum peninga inn í lífeyrissjóði. Hann bað ekki um það. Hann hafði ekkert um það að segja, hann gat í einhverjum tilvikum valið í hvaða lífeyrissjóð hann vildi leggja launin sín, það sem hann er í mörgum tilvikum píndur til að greiða af laununum sínum. Það eru ekkert allir á eitt sáttir með það hvernig farið er með peningana þeirra, 15,5% af því sem fólk er að vinna sér inn. Það eru ekki allir sáttir við það. Margir hafa líka sagt að þeir hefðu frekar viljað getað ávaxtað sína peninga sjálfir.

Almennt frítekjumark er mjög lágt í sögulegu samhengi og er markmið þessa frumvarps að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu og hvetja til sparnaðar lífeyrisþega með því að draga úr skerðingum. Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var m.a. gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Þess í stað var lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði. Það var þessi einföldun sem var verið að gera á kerfinu. Allt var sett undir sama hatt. Nú er bara eitt frítekjumark í sambandi við lífeyrissjóðina og allar þær greiðslur. Það var 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþegans, óháð tegund, skerðir bara búmm um 25.000 kr.: Þú ert skertur, vinur minn, þú ert kominn í keðjuna, kominn í skerðingarkeðjuna, takk fyrir.

Með lögum nr. 96/2017 var einnig lögfest sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna, samanber 4. málslið 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, en samkvæmt upplýsingum frá félags- og barnamálaráðherra nema heildarskerðingar ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna — takið eftir — 37.556 milljörðum kr. árlega; hátt í 38 milljörðum kr. á ári. Það kom berlega í ljós þegar Flokkur fólksins vann dómsmál fyrir hönd aldraðra gegn ríkinu, þegar ríkið hafði skert tekjur til þeirra vegna lífeyrissjóðs án heimilda. Heimild ríkisins til að skerða aldraða vegna lífeyristekna hafði fallið niður í janúar og febrúar árið 2017, þegar verið var að einfalda og laga löggjöfina. Hún féll bara niður þessi heimild. Flokkur fólksins steig fram og sótti það mál. Við unnum málið og þá kom í ljós hver raunverulega upphæðin er sem verið er að skerða aldraða um, hvers lags gífurlegar upphæðir um er að ræða. Eldri borgarar hafa sjálfir sparað fyrir lífeyrissjóðshlutdeild sinni. Lífeyristekjur eru ekki launagreiðslur sem koma frá vinnuveitendum að starfsaldri loknum. Því felst í skerðingu bótagreiðslna á grundvelli lífeyristekna óbein skerðing á þeim hagsmunum sem eldri borgarar hafa unnið sér inn með vinnu sinni í gegnum tíðina. Þetta er með hreinum ólíkindum. Ég ætla kannski ekki að fara nánar út í það, en við erum með allar tölur og töflur um það hvað það myndi kosta að afnema allar skerðingar, hvað myndi kosta að afnema allar skerðingar vegna lífeyristekna, hvað þetta myndi kosta og hvað hitt. Ég ætla ekki að tala um það. Ég get hins vegar aðeins sagt þetta: Að afnema allar skerðingar kostar brotabrot af því sem lífeyrissjóðirnir myndu þurfa að greiða í ríkissjóð. Ef við myndum afnema undanþáguheimild staðgreiðslu lífeyrissjóðanna fengi ríkissjóður á bilinu 70–90 milljarða kr. á ári sem er miklu meira en nóg til þess að afnema allar skerðingar og lofa okkur bara að lifa í friði með það sem við höfum verið að gera án aðkomu ríkissjóðs, án aðkomu stjórnvalda sem vita varla hvort þau eru að koma eða fara þegar þau eru að stagbæta kerfi, rétta út höndina og ná í þetta hér á sama tíma og þau skerða það miklu meira á hinum staðnum. Hægri höndin veit ekkert hvað sú vinstri er að gera og þetta almannatryggingakerfi og þetta kerfi sem er verið að bjóða landsmönnum upp á er stagbætt. Eins og minn ágæti samflokksmaður, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, hefur gjarnan sagt: Þetta er eins og Frankenstein þetta tryggingakerfi, og það er ekki fyrir nokkurn mann undir sólinni að reyna að skilgreina það eða skilja nema með því að fara á sérnámskeið eða reyna að ná sér í doktorsgráðu í því sem þar fer fram. Ef einhvern tíma væri vilji til að stíga út fyrir boxið, til að hætta að hanga eins og hundar á roði í handónýtu kerfi og vinna fyrir fólkið í landinu, fyrir alla, ekki bara suma, væru hlutirnir sannarlega öðruvísi.

Það var farið mjög hóflega fram af hálfu eldri borgara. Þau voru að tala um að hækka þetta frítekjumark, úr 25.000 kr. á mánuði, sem er náttúrlega svo skammarlega lág upphæð að það hálfa væri nóg. Þau fóru ekki fram á að afnema það. Nei, þau fóru bara fram á að það yrði hækkað í 100.000 kr., að þetta frítekjumark yrði hækkað í 100.000 kr. Það er nákvæmlega það sem þetta frumvarp til laga, sem Flokkur fólksins er að leggja hér fram, fjallar um. Það er akkúrat það sem við erum að mæla fyrir hér í þriðja sinn. Þegar við mætum hér á nýju þingi, eftir nýjar kosningar, munum við mæla með því í fjórða sinn og í fimmta og sjötta sinn og við gefumst aldrei upp. Því að eitt er alveg víst: Flokkur fólksins setur fólkið í fyrsta sæti. Við segjum: Fólkið fyrst, svo allt hitt.