151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

kostnaður vegna losunarheimilda.

[10:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Að sjálfsögðu getur Ísland lagt sitt af mörkum og hefur heldur betur gert það í umhverfismálum, ekki síst með því að framleiða umhverfisvænasta ál í heimi. Við þurfum að gera þetta á okkar forsendum því að það hefur reynst best, í stað þess að vera sektuð fyrir að hafa byggt upp hér umhverfisvænan iðnað. Ef hann hefði byggst upp annars staðar, í ríkjum sem lúta ekki sömu skilyrðum, hefði hann mengað miklu meira.

En nú velti ég því fyrir mér hvort hæstv. forsætisráðherra geti svarað spurningunni í stað þess að fara út í almennar vangaveltur um umhverfismál og seinni tíma samninga. Hér er ég að spyrja um áhrifin af Kyoto-bókuninni og þær fullyrðingar sem við höfum heyrt ítrekað, að Ísland muni þurfa að borga milljarða af þeirri ástæðu. En svo kemur Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs, Fréttablaðinu og bendir á að hægt sé að leysa þetta með 187 milljónum eða svo, en það þurfi að gerast fljótt því að fresturinn renni út um áramót. Því spyr ég einfaldlega: Mun ríkisstjórnin nota þetta tækifæri? Því að mér heyrist að hæstv. ráðherra geri ekki ráð fyrir því að hverfa alveg frá þessu fyrirkomulagi.