151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

endurskoðun skaðabótalaga og bótasjóðir tryggingafélaganna.

[10:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. „Spikfeit tryggingafélögin fá aldrei nóg af peningum bíleiganda“, segir í fyrirsögn í nýútkomnu blaði FÍB. Vátryggingaskuldir tryggingafélaganna nema rúmum 100 milljörðum kr. Þessir 100 milljarðar eru oftekin iðgjöld sem tryggingafélögin þykjast skulda tryggingatökum til að bæta hugsanleg tjón, sem þau forðast með öllum ráðum að borga og því liggja peningarnir í sjóðum hjá félögunum. Venjulegt fólk kannast við þessar skuldir sem bótasjóð tryggingafélaganna, þ.e. peninga sem ætlað er að bæta tjón. Alla þessa fjármuni þarf að ávaxta til viðbótar við 120 millj. kr. eigið fé tryggingafélaganna. Þau komast upp með það vegna þess að á milli þeirra ríkir engin raunveruleg samkeppni. Þvert á móti keppast þau við að safna peningum í peningaspik í formi sjóðanna og njóta þar verndar fjármálaeftirlits Seðlabankans, sem er sennilega lokað ofan í einhverri skúffu og er ekki hleypt út. Sífellt bæta þau í sjóðina og því linnir ekki oftöku iðgjalda og sjóðirnir eru aldrei gerðir upp, eins og siðaðar þjóðir gera yfirleitt.

Þá eru fjárhæðir skaðabóta rangar og þarf að hækka lágmarksfé fyrir 66 ára og yngri úr 3,3 millj. kr. í 6,3 millj. kr., eða um nær 100%. Fyrir 74 ára og eldri myndi lágmarksviðmið hækka úr 1,1 millj. kr. í 2,1 millj. kr., eða um 87%. Tekjuviðmið, eins og þau eru núna í skaðabótunum, eru kolröng og það er alveg með ólíkindum að þarna vantar upp á 87%. Það þýðir á mannamáli að verið er að gjaldfella vinnu hóps fólks sem gæti lent í slysum og borga honum nærri helmingi lægra en hann ætti að fá. Þess vegna er spurning mín til hæstv. dómsmálaráðherra eftirfarandi: Ætlar hún sér að standa við yfirlýsingar sem hún gaf í andsvörum hér á þingi um að til standi að breyta þessum tekjuviðmiðum og að sjóðir tryggingafélaganna verði gerðir upp, eins og aðrar siðaðar þjóðir gera?