151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

málefni framhaldsskólans.

[11:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Framhaldsskólaárin eru mikil mótunarár í lífi ungmenna. Það er oftar en ekki þar sem vinasamböndin verða til. Við lærum á okkur sjálf, þroskumst og finnum leiðir okkar til framtíðar. Ég vil taka það fram hér í upphafi að ég var og er enn á því að stytting framhaldsskólans hafi verið misráðin einmitt vegna þessa mikilvæga þáttar á þessum árum en það er önnur umræða. Því miður voru stjórnvöld ekki nógu framsýn í haust til að vera undirbúin með viðbragð við annarri og þriðju bylgju faraldurs. Það má segja að eðlilegt hafi verið að öllu hafi verið skellt í lás í framhaldsskólanum í vor þegar veiran mætti fyrirvaralaust. En þá þegar hefði vinna átt að hefjast hjá yfirmanni menntamála við að skapa þennan grundvöll til félagsþátttöku sem nauðsynlegur er meðfram náminu. Hvernig er hægt að koma ungmennum í gegnum þetta án þess að þau hljóti varanlegan skaða af? Nemendur í tíunda bekk grunnskóla fá að stunda sitt nám með grímur en jafnaldrar þeirra í fyrsta bekk framhaldsskóla hafa ekki mætt í skólann í allt haust.

Nú skal það tekið alveg skýrt fram að ég er fylgjandi sóttvarnaráðstöfunum svo að ég er ekki að biðja hæstv. ráðherra um að svara mér með því einu að þetta séu bara reglurnar, heldur að svara þeim foreldrum sem nú hafa gríðarlegar áhyggjur af heilsu og líðan barna sinna, hvort ráðherra hafi í hyggju að hugsa út fyrir boxið í leit að lausn svo að mæta megi þörfum þessa hóps.