151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

málefni framhaldsskólans.

[11:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, ég vildi líka að það væri ekki veira en það er ekki svar. Í gærkvöldi heyrðum við í skólastjórnanda sem lýsti góðu gengi nemenda og litlu brottfalli. Nú skulum við alveg hafa það í huga að skólar hafa fæstir lokið haustönn og því varla ljóst með brottfallstölur. Brottfall nemenda úr framhaldsskólum hér á landi er hvorki meira né minna en helmingi meira en á hinum Norðurlöndunum. Við skerum okkur algerlega úr þar sem einn af hverjum fimm telur sig ekki eiga heima í okkar framhaldsskólakerfi og einn af hverjum fjórum drengjum. Það ætti að vera tilefni stjórnvalda til að ráðast í harkalegar aðgerðir til að mæta þessum ungmennum alla jafna, ekki bara í heimsfaraldri. Það kom neyðarkall frá foreldrafélagi Menntaskólans við Sund. Dagleg rútína er fokin og jafnvel afburðanámsmenn eru af foreldrum sagðir vera að falla í áföngum og úr námi. Þetta er upplifun foreldra sem búa með börnunum en hitta þau ekki bara á fjarfundum örsjaldan í viku. Þau segja margra vikna bið eftir (Forseti hringir.) sálfræðiþjónustu í skólunum og enginn er að ræða hvaða möguleikar séu í stöðunni. Getum við núllstillt önnina? Er hægt að senda nemendum (Forseti hringir.) skýr skilaboð um að þeir fái tilslökun og að fallið í áföngunum verði afmáð úr einkunnabókum (Forseti hringir.) þannig að það bitni ekki á þeim til framtíðar? Þetta er líklega viðkvæmasti hópurinn sem virðist gleymdur. (Forseti hringir.) Ég spyr því að lokum: Hvar ætla stjórnvöld að mæta þeim? Staðan er grafalvarleg.