151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:09]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir það tækifæri að geta veitt þinginu skýrslu um stöðu mála. Ég held að það sé ekkert nema heiðarlegt að segja það, við þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu, af völdum Covid-19 og þeirra sóttvarnaráðstafana sem þjóðin hefur þurft að grípa til, að staðan á vinnumarkaði er grafalvarleg. Það væri rangt að halda öðru fram í þessum sal. Í lok október var heildarfjöldi atvinnulausra rúmlega 20.000 í almenna atvinnuleysistryggingakerfinu ásamt tæplega 5.000 manns sem eru í hlutastörfum í gegnum hlutabótaleiðina. Nemur það rúmlega 11% atvinnuleysi á landsvísu. En nú er að taka við mánuður þar sem atvinnuleysi eykst almennt í íslensku samfélagi vegna árstíðabundinnar sveiflu og er því búist við að atvinnuleysi verði yfir 11% fram yfir páska. Við búumst ekki við því að vinnumarkaðurinn taki almennilega við sér fyrr en að við förum að horfa til jákvæðra frétta af lyfjum til bólusetninga. Sem betur fer erum við að horfa á slíkar fréttir og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að það takist vegna þess að, eins og bent hefur verið á, m.a. í umræðum um fjárlög, fjárlög gera ráð fyrir því að við komum ferðaþjónustunni að einhverju eða allverulegu leyti af stað á næsta ári. Ferðaþjónustan hefur orðið hvað mest fyrir barðinu á faraldrinum og greinar henni tengdar. En það er líka rétt að fjalla um aðrar greinar sem hafa farið niður við þessar aðstæður og þar má til að mynda nefna byggingariðnað þar sem fjölgaði um meira en 700 manns á atvinnuleysisskrá milli október 2019 og október 2020. Þar eru einnig fram undan mánuðir vegna þess veðurfars sem er á Íslandi, þar sem alla jafna er minna um byggingarframkvæmdir en yfir sumarmánuðina.

Áhrifanna gætir á landinu öllu. Atvinnulausum fjölgar þó langmest á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, en á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um rúmlega 8.000 manns á milli október 2019 og 2020, voru tæplega 5.300 fyrir ári en eru nú 13.300. Á Suðurnesjum hefur fjölgað um tæplega 2.200 manns milli ára og eru í dag tæplega 3.300 atvinnulausir einstaklingar á Suðurnesjum. Við höfum gripið til margra aðgerða og ég ætla ekki að þylja þær upp hér en ég ætla að fara yfir þær áherslur sem lagðar verða í vetur, sem er að ganga í garð, hvað varðar þjónustu við atvinnulausa einstaklinga. Þar ber fyrst að nefna Nám er tækifæri, þar sem við erum með 3.000 námspláss sem eru ætluð einstaklingum sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur. Er það þrisvar sinnum stærra átak en sambærilegt átak var hér á árunum eftir efnahagshrun þar sem voru um 1.000 skólapláss. Undirbúningur að þessari aðgerð er kominn vel af stað og gengur vel. Atvinnurekendur geta líka fengið 100% grunnatvinnuleysisbætur, auk 11,5% framlags í ráðningarstyrk til að ráða atvinnuleitanda sem hefur verið atvinnulaus. Það getur gilt í allt að sex mánuði og styrkurinn getur numið 322.000 kr. á mánuði með hverjum einstaklingi sem fyrirtæki eða opinber stofnun tekur í vinnu. Við höfum breytt reglugerð nú á haustdögum sem þýðir að allir sem hafa verið sex mánuði án atvinnu taka með sér 100% styrk inn í 100% starf hjá atvinnurekanda. Við erum að veita fullan styrk til þess að fyrirtæki geti tekið fólk af atvinnuleysisskrá. Það er í undirbúningi að koma á samstarfi við nokkur stór sveitarfélög, opinberar stofnanir og atvinnurekendur almennt um að skapa störf með styrk til að taka við þessu.

Við höfum einnig aukið ýmis virkniúrræði hjá Vinnumálastofnun, svigrúm til að stunda nám samhliða atvinnuleysisbótum, hækkuð framlög til atvinnuleitenda vegna þátttöku í námskeiðum o.s.frv. Jafnframt hefur verið gefið í hjá vinnumiðlun Vinnumálastofnunar þar sem að meðaltali 175 störf eru auglýst á mánuði og er það aukning frá því fyrir ári, úr 135 störfum. En við þurfum að halda áfram. Þessi vetur verður þungur í atvinnulegu tilliti en sem betur fer glittir í bóluefni og besta og mikilvægasta leiðin til að koma atvinnulífinu af stað er að koma ferðaþjónustunni af stað, hún er undirstaðan í því atvinnuleysi sem er í samfélaginu í dag.