151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:16]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Já, það hefur einkennt málflutning hv. þingmanns hér síðan þessi veira kom upp að hann hefur talið sig sjá fyrir hvernig veiran hagar sér. Þegar veiran kom fyrst upp fór ríkisstjórnin strax inn með hlutabótaleiðina. Við töldum að þetta yrði skammur tími vegna þess að það vissi enginn hvernig veira eins og þessi hagar sér. Sumar þeirra hafa smátt og smátt dáið út, sumar hafa varað lengi o.s.frv., en hv. þingmaður segist hafa svar við því og hafi alla tíð haft. Ég held að það sé einfaldlega rangt. Ríkisstjórnin hefur, í samstarfi við atvinnulíf og við verkalýðshreyfinguna, við formenn ýmissa sviða, unnið að því að ná utan um launamenn með fjölþættum aðgerðum gagnvart atvinnuleitendum. Við höfum líka farið í fjölþættar aðgerðir gagnvart atvinnulífinu. Fjármálaráðherra var að kynna hér viðspyrnustyrki fyrir ekki svo löngu, þannig að við höfum ráðist í fjölmargar aðgerðir. Það er einfaldlega heiðarlegt að segja að þegar ein atvinnugrein, við trúum því að það sé tímabundið, fellur algerlega út, atvinnugrein sem var orðin ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar, þá er það ekki þannig að það bil verði brúað einn, tveir og þrír.

Hv. þingmaður hefur haft það á stefnuskrá sinni að byggja áburðarverksmiðju á Íslandi. Áburðarverksmiðja verður ekki byggð á tíu mánuðum, hv. þingmaður. Það er einfaldlega svo að við vorum með atvinnugrein sem er gríðarlega öflug, sem er ferðaþjónustan, og margt sem tengist henni lokaði einfaldlega tímabundið. Við erum að ráðast í fjölþættar aðgerðir og þingmaðurinn á ekki að gera lítið úr því þegar verið er að tala um Nám er tækifæri, þegar verið er að tala um þá miklu rýmkun sem gerð hefur verið til styrkja til fyrirtækja sem ráða fólk af atvinnuleysisskrá vegna þess að við sjáum að það hefur skilað árangri í sögunni og það mun gera það núna líka. En sem betur fer glittir í endann á þessari veiru og það mun skipta mestu máli í því að draga úr atvinnuleysi hér á landi. Það er einfaldlega óheiðarlegt að viðurkenna ekki (Forseti hringir.) að það er fyrst og fremst ferðaþjónustan sem þetta er að hafa áhrif á.