151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er eins og hæstv. ráðherra hafi ekki góðan málstað að verja því að hann ver tíma sínum í að hnotabítast út í þann sem hér stendur í staðinn fyrir að einhenda sér í að segja frá því hvað hann vilji gera. Kannski er það vegna þess að hann veit ekki hvað hann vill gera eða ætlar að gera. Hér var minnst á ferðaþjónustu en það er ein starfsemi í ferðaþjónustu sem virðist hafa orðið algjörlega út undan, í þeim aðgerðum sem farið hefur verið út í, og það eru lítil ferðaþjónustufyrirtæki, gisting sem er rekin á eigin kennitölu eiganda. Það virðist vera þannig, og ég hef fengið meldingar um það úr þessum geira, að þar hafi engar aðgerðir dugað og engar aðgerðir passi inn í það starfssvið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hyggst gera í því. Það er annar atvinnurekstur sem ég hef líka fengið upplýsingar um að standi höllum fæti, og það er rekstur sem er stofnaður eftir 1. mars, þ.e. rekstur sem er stofnaður þegar fyrri bylgja veirunnar gekk niður; fékk kannski tvo mánuði í friði en hefur síðan verið hálflokaður og meira en það. Og þarna er ég t.d. að tala um veitingastarfsemi sem menn hafa sett á stofn á þessum tíma. Ég tek fram, og ég bið forseta að minnast þess sem ég sagði áðan, að ég sagðist meta það að verið væri að gera ráðstafanir til þess að menn gætu farið á námskeið og fyrirtæki gætu ráðið þá með aðstoð. Ég var ekki að gera lítið úr því, það er rangt hjá hæstv. ráðherra. Ráðherra kýs kannski bara að heyra það svo, og það er þá hans vandamál að horfa ekki á málefnin sem eru fram undan heldur (Forseti hringir.) þann sem kemur með vond skilaboð til hans, það er ekki góðra manna háttur að gera slíkt.