151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:25]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Á fyrstu mánuðum eftir Covid, mars, apríl, maí og inn í sumarið, var Vinnumálastofnun alveg upp fyrir haus bara að afgreiða umsóknir og greiða út bætur vegna þess að um fjórðungur vinnumarkaðarins á þessum tíma fór um Vinnumálastofnun. Á sama tíma var fólk að aðlaga sig þeim breyttu aðstæðum að vinna heiman frá sér og stofnunin var líka að þjálfa nýtt fólk sem hún bætti við sig. En þegar leið á sumarið var hægt að fara að auka áhersluna á vinnumiðlun Vinnumálastofnunar.

Það er þannig, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, að fólk sem er á atvinnuleysisskrá á ekki að hafna vinnu. Þetta er brú á milli einnar vinnu í aðra. Þess vegna er ánægjulegt að það sem hefur farið í gegnum vinnumiðlun hefur verið að aukast, fór að aukast mikið á vordögum, og núna í október eru 175 störf auglýst í gegnum þessa vinnumiðlun. Vinnslan er sú að einstaklingur sem hafnar vinnu í gegnum vinnumiðlun eftir fyrsta mánuðinn í atvinnuleysi á að tapa atvinnuleysisbótum í ákveðinn tíma. Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga hefur haft rúmlega 200 manns til skoðunar vegna þess að þeir hafa hafnað vinnu og 80 manns hafa tapað bótum af þeim sökum. Síðastliðna tvo mánuði hefur vinnumiðlun á Reykjanesi komið 50 manns á svæðinu í fullt starf í gegnum þennan kanal. Ef fólk hafnar vinnu í gegnum þessa vinnumiðlun þá á það að tapa bótum í ákveðinn tíma. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.