151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:29]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Já, mér er kunnugt um að Vinnumálastofnun hefur verið í fjölþættu samstarfi í gegnum skrifstofu sína á Reykjanesi. Ég held að það sé full ástæða til að hamra á því sem hv. þingmaður sagði hér. Við erum búin að rýmka reglurnar til fyrirtækja þannig að þau geti fengið ráðningarstyrk með hverjum starfsmanni. Það er full ástæða til að nota þessa umræðu líka til að auglýsa það, svo að atvinnurekendur sem geta bætt við sig verkefnum viti að þeir geti fengið 100% grunnatvinnuleysisbætur, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð, í styrk til að ráða atvinnuleitanda í allt að sex mánuði. Þeir geta fengið 322.804 kr. í ráðningarstyrk með hverjum starfsmanni í allt að sex mánuði. Það er búið að rýmka reglurnar líka og stytta þann tíma sem viðkomandi einstaklingur þarf að hafa verið atvinnulaus til að mega nýta sér þetta. Þannig að það er full ástæða til að hvetja til þess sem hv. þingmaður var að gera hér og ég geri það líka og tek undir orð hans.