151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Ég held að það sé ljóst að aðgerðir á því málefnasviði sem heyrir undir hæstv. ráðherra eru gríðarlega mikilvægar í því samhengi sem við erum að glíma við, afleiðingar Covid-faraldursins. Ég vildi kannski aðeins skipta um takt í þessari umræðu, ef ég má, og spyrja hæstv. ráðherra: Ef við horfum aðeins lengra fram í tímann og veltum fyrir okkur hvernig staðan er þegar við erum búin að glíma við hinar bráðu aðstæður sem nú eru uppi, er hæstv. ráðherra þá ekki sammála mér um það að leiðin fram á við, til að losna út úr því atvinnuleysi sem nú þegar hefur gert vart við sig og mun sennilega vaxa á næstu mánuðum, hlýtur að vera sú, og ég bið hæstv. ráðherra að deila hugsunum sínum um það með mér, að greiða leið atvinnulífsins til þess að skapa fleiri störf?

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra er kominn í þá vinnu að velta því fyrir sér á sínu málefnasviði hvernig hægt sé að gera breytingar sem stuðla að því að atvinnulífið nái viðspyrnu þegar versta höggið hefur gengið yfir og hvernig við getum bætt stöðu íslensks atvinnulífs þannig að það nái að skapa störf í stað þeirra sem glatast hafa nú á undanförnum mánuðum.