151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að við séum að hugsa þetta á mjög svipuðum nótum, þ.e. að við getum kannski skipt baráttu okkar í þrjú þrep. Fyrsta þrepið er auðvitað þar sem við erum stödd í dag. Við erum að reyna að bregðast við bráðaaðstæðum og vanda sem er brostinn á og reyna að milda það högg eins og við getum. Næsta skref er, eins og hæstv. ráðherra nefndi, auðvitað mjög háð því hve fljótt ferðaþjónustan getur tekið við sér aftur. Það myndi muna langmestu í sambandi við hagvöxt og fjölgun starfa hér á næstu mánuðum og misserum ef ferðaþjónustan kæmist í gagnið sem fyrst aftur. Svo er þriðja þrepið kannski langtímahugsunin, sem hæstv. ráðherra kom réttilega inn á (Forseti hringir.) að tengist stefnunni í sambandi við hið almenna starfsumhverfi atvinnulífsins í landinu.