151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þann 11. júlí sl. var frétt um það í Fréttablaðinu að allar líkur væru á að fjölga myndi í hópi þeirra íbúa á Suðurnesjum sem teljast vera sárafátækir. Brýnt er að stjórnvöld og samfélagið allt komið til aðstoðar, sagði þá Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, sem er í velferðarvakt stjórnvalda. Velferðarvaktin fundað í sumar með bæjaryfirvöldum og öðrum hagsmunaaðilum á Suðurnesjum þar sem staðan í kjölfar Covid-19 faraldursins var rædd. Atvinnuleysi á Suðurnesjum í október var 21,1% og búist er við að það aukist enn. Það er mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum og þegar fólk dettur út af uppsagnarfresti í haust og fer á strípaðar atvinnuleysisbætur þá vitum við að það verður mikill vandi. Þá mun fólk búa við mikla fátækt. Það er einsýnt að þarna mun fólk búa við sárafátækt, er haft eftir Vilborgu í fréttinni frá því í sumar. Samfélagsmiðlar sýna því miður að margir atvinnulausir eiga mjög erfitt. Á samfélagsmiðlum fjölgar áköllum og óskum eftir matargjöfum eða eftir hjálp við að kaupa varahluti í heimilistæki, svo dæmi séu tekin. Mjög margar sögur eru af Suðurnesjum, af hjálparbeiðnum frá fólki sem á ekki fyrir mat eða öðrum nauðsynjum.

Ég spyr því hæstv. félags- og barnamálaráðherra hvort velferðarvaktin hafi gefið honum nýlega skýrslu um ástandið á Suðurnesjum. Hefur ráðherrann brugðist sérstaklega við stöðunni í landshlutanum eða stendur það til?