151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:39]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af stöðunni á Suðurnesjum. Ráðherra ætlar ekki að reyna að fegra þá stöðu vegna þess að hún er grafalvarleg. Almennt hefur ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir sem miða að þeim svæðum sem verst hafa orðið úti og það var gert í félagslegum aðgerðum sem unnar voru í vor og kom fjármagn til. Það hefur verið gert með fjármagni sem er eyrnamerkt í jöfnunarsjóði og er sérstaklega til að efla félagsþjónustuna, hefur farið í gegnum sveitarstjórnarráðherra, ég held það séu um 700 milljónir. Síðan er til að mynda fjármagn sem er ætlað í tómstundastyrki, rétt tæpur milljarður, 600 milljónir á þessu ári og svo áframhald á næsta ári, og eðli máls samkvæmt mun mikið af þessu renna inn á þetta svæði.

Síðan höfum við verið í sambandi við bæjaryfirvöld á svæðinu. Við höfum fundað með þeim. Það er ekki mjög langt síðan að ég fór til fundar með bæjaryfirvöldum og félagsþjónustu, bæði í Reykjanesbæ og í Suðurnesjabæ þar sem var farið yfir ýmis mál. Meðal annars var á haustdögum breyting á reglugerð sem lýtur að ráðningarstyrkjum afurð samtalsins sem þar fór fram. En síðan erum við líka núna með beiðni og var kynnt á föstudaginn, og verður væntanlega til umræðu hér í tengslum við 2. umr. fjárlaga, um 900 milljónir sem eru ætlaðar til þess að styðja við félagslega viðkvæma hópa.

Varðandi það samtal sem er í gangi þá höfum við verið í góðu samtali við velferðarvaktina en líka við félagsmálastjóra á viðkomandi svæði. Ég funda mánaðarlega með öllum félagsmálastjórum á landinu og gerði það síðast í gær þar sem við vorum að fara yfir væntanlegar félagslegar aðgerðir. (Forseti hringir.) Þannig að já, ég hef lagt mig fram um að vera í góðu sambandi og samtali við bæjaryfirvöld á svæðinu og fólk á svæðinu og er tilbúinn til þess að hlusta ef ábendingar eru um einstaka atriði.