151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svarið og sannarlega hef ég verið með alls konar ábendingar um mörg atriði sem ekki hefur verið hlustað á. Ég hef áður átt orðastað við hæstv. ráðherra um það sem mér finnst hróplegt óréttlæti, þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lengja tekjutengt tímabil atvinnuleysisbóta fyrir helming þeirra sem voru atvinnulausir í ágúst. Hinir 10.000 sem misstu vinnu í febrúar eða fyrr eru skildir eftir þótt dagljóst sé að enga vinnu er að fá í atvinnukreppu fyrir þá atvinnuleitendur. Þeir verst settu eru skildir eftir í mjög erfiðri stöðu.

Að lengja tekjutengda tímabilið fyrir alla en ekki bara þá sem styst hafa verið atvinnulausir gæti aldrei kostað meira en 5 milljarða kr. fyrir ríkissjóð. Til samanburðar samþykktum við fyrir nokkrum dögum tekjufallsstyrki til fyrirtækja sem gætu kostað um 30 milljarða og í dag er mælt fyrir viðspyrnustyrkjum til fyrirtækja sem gætu kostað ríkið um 20 milljarða. Þetta er til viðbótar öðrum styrkjum til fyrirtækja sem sannarlega er þörf á.

En heimilin hafa líka orðið fyrir miklu tekjufalli og þurfa viðspyrnu en hæstv. ríkisstjórn er tregari til að bregðast við þeim vanda. Á næstu mánuðum mun þeim fjölga jafnt og þétt sem eiga engin önnur úrræði en að leita til sveitarfélaga um fjárstyrk sem er í öllum tilfellum lægri en grunnatvinnuleysisbætur og skilyrðin ströng um úthlutun styrkjanna. Ég minni á að fall WOW var snemma á síðasta ári og atvinnuleysi á landinu var 5% í febrúar á þessu ári og þá þegar komið í 9% á Suðurnesjum. Og það er spáð 10% atvinnuleysi á næsta ári og það eru um 20.000 manns.

Er ekki það allra minnsta sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur getur gert í þessari stöðu að lengja atvinnuleysisbótatímabilið um 12 mánuði? Eða telur hæstv. félags- og barnamálaráðherra rétt að fólkið neyðist til að segja sig til sveitar í atvinnukreppu og heimsfaraldri?