151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:44]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Við höfum ráðist í fjölþættar aðgerðir. Hv. þingmaður segir að aldrei sé á sig hlustað. Ég held að það sé ekki alveg rétt vegna þess að varðandi sumar af þeim aðgerðum sem við höfum farið í hafa einmitt komið brýningar frá hv. þingmanni um að ráðast í þær, til að mynda breytingar á tekjutengingunni þannig að hún næði til allra sem misstu vinnu eftir 1. mars. Ég minnist þess að hv. þingmaður hafi talað fyrir sérstöku álagi til barna atvinnulausra, að það færi í 6%. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin sé núna að framlengja það. Það er hv. þingmaður sem hefur bent á það.

Þegar kemur að aðgerðum almennt þá höfum kynnt ákveðnar aðgerðir sem miða að því að hækka grunnbæturnar og framlengja þetta 6% álag út næsta ár. Það kann vel að vera að það verði brugðist frekar við. Við erum alltaf að vakta það og skoða og erum í góðu og þéttu samtali og samstarfi við m.a. Samband íslenskra sveitarfélaga. Og af því að hv. þingmaður fjallar hér um samspil félagsþjónustunnar við það þegar atvinnuleysisbótatímabilið endar, þá er það eitt af því sem við höfum fjallað um í góðu samtali og samvinnu á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins. Hvernig verður þróunin á því næstu mánuði? Hvernig er það greint á milli landshluta? Hvernig er verið að taka utan um fólk þar o.s.frv.? Það kann vel að vera, vegna þess að það samtal hefur leitt til aðgerða, og er ekki loku fyrir það skotið að gripið verði til frekari aðgerða. En á sama tíma erum við alltaf að vakta það hvenær við förum að sjá faraldurinn fara niður og þetta er einfaldlega samspil þarna á milli. Þannig að það liggur ekki fyrir á þessari stundu. Við erum að (Forseti hringir.) koma með aðgerðir núna inn í þingið. Eru það seinustu aðgerðirnar? Vonandi eru þær með seinustu aðgerðunum og við förum að sjá fyrir endann á þessu ástandi. En ef það lengist í því mun þurfa frekari aðgerðir.