151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:54]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta. Það er rétt, sá hópur sem klárar bótarétt sinn mun stækka, sérstaklega eftir því sem líður á næsta ár ef ekki fer að glæðast í atvinnumálum fyrir þann tíma. Engu að síður höfum við unnið í góðu samstarfi við sveitarfélögin, að ýmsum úrræðum þar sem komið er til móts við sveitarfélögin með einum eða öðrum hætti. Við setjum tæpan milljarð í tómstundastyrki fyrir tekjulágar fjölskyldur, sem þýðir um 45.000 kr. á hvert barn til tómstundaiðkunar. Við höfum sett félagslegar aðgerðir hér á vordögum og það eru 900 millj. kr. væntanlegar í frekari félagslegar aðgerðir ef fjárlög verða samþykkt. Þar má nefna til að mynda þá pólitísku ákvörðun ríkisstjórnarinnar að við ætluðum ekki að hafa neina heimilislausa á götunni meðan á Covid stæði og gerðum samning við Reykjavíkurborg um það og er hann að fullu fjármagnaður af hálfu hins opinbera. Það er sannarlega hlutverk sveitarfélaga að sinna því. Á sama tíma erum við búin að vera í samtali við sveitarfélögin og félagsþjónustuna að kortleggja hvernig fjárhagsaðstoðinni er háttað milli sveitarfélaga. Það er mismunandi og það er ekkert ósennilegt að það leiði til frekari aðgerða þegar við komum inn í nýtt ár. Það er enn þá til skoðunar. Ég tek undir með hv. þingmanni um að staðan er grafalvarleg, en það má líka reikna með því að sveitarfélög muni þurfa að taka á sig einhver lán og skuldbindingar sem tekur einhvern tíma að borga, rétt eins og ríkið hefur gert í gegnum þennan heimsfaraldur.