151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra fór í framsögu sinni yfir sláandi háar tölur atvinnulausra og að hlutfall þeirra væri hæst á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. En ég saknaði þess sárt að heyra hæstv. ráðherra minnast einu orði á stærsta einstaka hópinn sem er atvinnulaus um þessar mundir og það eru innflytjendur. 7.000 innflytjendur eru án atvinnu á Íslandi. Innflytjendur, sem voru hreyfiafl í síðasta góðæri, eru nú tæpur helmingur allra atvinnulausra. En það er ekki að sjá að vinnumarkaðsaðgerðir ríkisstjórnarinnar miðist að þörfum þessa hóps nema að verulega litlu leyti. Námsúrræðin sem hæstv. ráðherra vísaði í sýnast mér flest vera á íslensku. Þá ber líka að nefna að lokað hefur verið fyrir pólska símalínu Vinnumálastofnunar sem gerir 4.000 einstaklingum af pólskum uppruna erfitt fyrir að nálgast upplýsingar um réttindi sín og úrræði.

Ég vil spyrja hvers vegna hæstv. ráðherra talaði ekki um þennan stærsta hóp atvinnulausra á Íslandi í framsögu sinni. Til hvaða úrræða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að styðja við atvinnulausa útlendinga? Hvers vegna reynum við ekki betur að koma til móts við þennan stóra hóp, tæpan helming allra atvinnulausra, erlenda ríkisborgara?