151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[11:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er laukrétt hjá hv. þingmanni að langstærstur hluti af þeim sem eru atvinnulausir nú er innflytjendur. Það er ólíkt því sem var í efnahagshruninu eftir 2009. Þá var hlutfall innflytjenda ekki svona hátt. Ástæða þess að hæstv. ráðherra nefndi þetta ekki í framsöguræðu sinni er sú, svo ég segi einföldu skýringuna, að tíminn leið það hratt að ég hafði ekki möguleika á því að nefna alla þættina. Við erum að ráðast í fjölþættar aðgerðir sérstaklega fyrir þennan hóp. Verið er að samræma íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Verið er að vinna að þróun sérstakra námsúrræða fyrir þennan hóp og við erum líka með talsvert fjármagn í þeim 900 milljónum, bæði í þeim fjármunum sem voru hér í félagslegum aðgerðum í vor og aftur núna, sem verður vonandi samþykkt fyrir jól, sem fer sérstaklega í aðgerðir fyrir innflytjendur. Þar má m.a. nefna að við ætlum að opna um miðjan janúar, tímabundið vegna Covid, sérstaka ráðgjafarstofu innflytjendamála sem tengir að saman öll kerfin og getur veitt atvinnulausum innflytjendum þjónustu á einum stað. Vinnumálastofnun mun koma inn í það, Fjölmenningarsetur mun koma inn í það og eins félagsmálaráðuneytið. Við munum geta náð þar utan um ráðgjöf og þjónustu fyrir þennan hóp og ætlum umtalsverða fjármuni í það á næsta ári.

Ástæðan fyrir því að það er kannski ekki til mikið af tilbúnum, klæðskerasniðnum úrræðum fyrir þennan hóp er sú að við höfum ekki glímt við svona hátt hlutfall atvinnuleysis meðal innflytjenda áður. Það er því ekki mikil reynsla og þekking til þess að bregðast hratt við í kerfinu, hjá Vinnumálastofnun. Viðbragðsflýtirinn er ekki eins mikill þegar reynslan og þekkingin eru ekki til staðar. (Forseti hringir.) En ég vænti þess að þegar við náum að setja þessa ráðgjafarstofu af stað um miðjan janúar og aðgerðir sem fylgja því, förum við að sjá aukinn kraft í þjónustu við þennan (Forseti hringir.) sannarlega mikilvæga þjóðfélagshóp.